Expectus13

Almennar fréttir - 02.02.2024

Velgengni hádegisfyrirlestra VR

VR hefur boðið félagsfólki sínu upp á fróðlega fyrirlestra í fjölda ára. Síðustu ár hafa hádegisfyrirlestrarnir verið á rafrænu formi. Mikil ánægja er með það fyrirkomulag því það kemur betur til móts við félagsfólk utan höfuðborgarsvæðisins, auðveldar aðgengi allra og eykur sveigjanleika fyrir áhorf því mögulegt er að hafa fyrirlestrana lengur opna og fólk getur því horft þegar því hentar. Þá hafa allir hádegisfyrirlestrar síðustu tvö ár verið með enskum texta, til að þessi þjónusta nýtist einnig þeim sem starfa á Íslandi og hafa önnur tungumál að móðurmáli.

Mikil aukning hefur orðið á þátttöku og áhorfi með rafræna fyrirkomulaginu en frá árinu 2020 hafa rúmlega 7.900 einstaklingar nýtt sér þjónustuna. Í fyrra horfðu samtals 2.590 einstaklingar á fyrirlestrana. Vinsælastir það árið voru fyrirlestrar um fjármál og þar á eftir komu fyrirlestrar um mátt umbreytinga, trans fólk í nútímasamfélagi og styttingu vinnuvikunnar. Framboðið er fjölbreytt og hádegisfyrirlestrarnir miða að því að veita félagsfólki VR góðar upplýsingar um málefni líðandi stundar ásamt fræðandi fyrirlestrum sem veita innblástur og hvatningu til að þróast í takt við tímann.

Opnað er fyrir fyrirlestrana á fyrirfram auglýstum tíma á vr.is/streymi og þar eru þeir opnir út daginn fyrir öll. Daginn eftir fara fyrirlestrarnir svo inn á Mínar síður þar sem þeir eru aðgengilegir félagsfólki í a.m.k. 30 daga.

VR þakkar fyrir góða þátttöku og vonar að félagsfólk haldi áfram að horfa!

Skoðaðu viðburðadagatal VR hér.