Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_logo-2.jpg

Almennar fréttir - 13.03.2019

Verslunarmannafélag Suðurnesja samþykkir sameiningu við VR

Félagsmenn í Verslunarmannafélagi Suðurnesja (VS) samþykktu, í atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi í dag, að sameina félagið VR.

Á síðasta aðalfundi VS þann 26. apríl 2018 var samþykkt að heimila stjórn félagsins að hefja sameiningarviðræður við VR og að gera lagabreytingar sem heimiluðu slíkt. Þær lagabreytingar voru svo samþykktar og fór rafræn atkvæðagreiðsla fram meðal félagsmanna VS um sameiningu við VR, dagana 6. – 13. mars 2019. Á kjörskrá voru 1.213 og alls greiddu 315 atkvæði eða 25,97%. Niðurstaðan var sú að 82,54% félagsmanna VS samþykktu sameiningu en 17,14% voru á móti. Til að sameining yrði samþykkt þurfti samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna VS.

VS mun því sameinast undir nafni og kennitölu VR frá og með 1. apríl 2019 að því gefnu að sameining verði samþykkt af hálfu VR á aðalfundi félagsins 27. mars nk.