Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
3H5A3368 2

Almennar fréttir - 23.09.2022

VR býður félagsfólki sínu starfsþróunarráðgjöf

Starfsþróun er ætlað að sporna gegn því að einstaklingar staðni í störfum sínu heldur vaxi með þeim verkefnum sem fylgja viðkomandi starfi. Hér er ekki endilega hvatt til þess að skipta um starfsvettvang heldur mikið frekar móta/tileinka sér nýjar aðferðir við að sinna þeim verkefnum sem starfið býður upp á. Verið getur að fólki fallist hendur og þyki erfitt að koma sér af stað í þetta ferli enda úr mörgum og fjölbreyttum kostum að velja. Eins vefst það fyrir mörgum hvar hægt er að afla sér upplýsinga þótt að áhuginn sé vissulega fyrir hendi. Á starfsþróunarvef VR er að finna mörg góð ráð og verkfæri sem nýta má í slíkri vegferð. VR vill auðvelda félagsfólki sínu þetta ferli og býður því upp á áframhaldandi starfsþróunarráðgjöf fyrir félagsfólk sitt í samstarfi við Mími-símenntun. VR bauð félagsfólki sínu upp á slíka þjónustu sl. haust og vor með góðum árangri og bindur vonir við góðar viðtökur.

Hvernig fer starfsþróunarráðgjöfin fram?
VR félagi skráir sig til viðtals undir „Meira“ á Mínum síðum á vr.is. Viðtölin eru rafræn, taka um 30 mínútur og fara fram í gegnum forritið Teams sem er einfalt í notkun. Hlekkur er sendur til viðkomandi félaga sem opnaður er til að hefja viðtalið.

Ekki er þörf á sérstökum undirbúningi fyrir viðtalið sem getur einnig farið fram á ensku sé þess óskað. Mímir-símenntun mun leiða félagsfólk VR í allan sannleika um hversu mikilvægt það er að vera virkur þátttakandi í eigin hæfniaukningarferli sem og að vera opið fyrir því að kynna sér ólíkar leiðir til hæfniaukningar. Ráðgjöfin nýtist á ýmsa vegu þar sem félagsfólk VR getur m.a. fengið upplýsingar um fræðsluúrræði, raunfærnimat og atvinnumöguleika.