Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Almennar fréttir - 05.05.2010

VR fagnar ályktun Jafnréttisráðs

Eins og kunnugt er fór fram allsherjarkosning í VR í mars síðastliðnum þar sem kosið var um þrjú stjórnarsæti í einstaklingsbundinni kosningu og um trúnaðarráð félagsins. Í kjölfar þessara kosninga sitja nú sjö konur og sjö karlar í aðalstjórn félagsins, auk formanns sem er karlmaður. Í 82 manna trúnaðarráði sitja jafnmargar konur og karlar. Hlutföll kynjanna í félagaskrá VR eru þannig að konur eru um 60% en karlar um 40%.

Jafnréttisráð lýsti yfir ánægju með niðurstöður kosninganna og sendi frá sér svohljóðandi ályktun.

"Ályktun Jafnréttisráðs 26. apríl 2010 um stjórn og trúnaðarmannaráð VR

Sú gleðilega niðurstaða fékkst í allsherjaratkvæðagreiðslu um stjórn og trúnaðarmannaráð hjá VR sem fram fór 15.-29. mars 2010 að hlutföll kynja urðu í báðum tilfellum hnífjöfn. 

Þetta er eðlileg og sjálfsögð niðurstaða í lýðræðisríki sem vill setja jafnrétti og mannréttindi í öndvegi, en því miður sjaldgæf enn sem komið er.

Jafnréttisráð fagnar því niðurstöðu þessara kosninga hjá VR og vonar að hún verði félagsmönnum öllum til heilla og öðrum til eftirbreytni.

Þórhildur Þorleifsdóttir,
Formaður Jafnréttisráðs"

VR hefur lengi barist fyrir jafnrétti kynjanna og telur niðurstöðu kosninganna mikilvægt skref í að jafna hlut karla og kvenna. Félagið þakkar hlý orð Jafnréttisráðs og tekur undir lokaorð Þórhildar Þorleifsdóttur, formanns ráðsins, von okkar er að niðurstaða kosninganna verði félagsmönnum til heilla og öðrum til eftirbreytni.