Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Torgið Instagram Margir Símar1

Almennar fréttir - 21.10.2021

VR í samstarf við 1819 Torgið

Félagsfólki VR gefst nú kostur á að nálgast tilboð, afslætti og kjör með eins auðveldum hætti og mögulegt er með nútíma tækni. Öll tilboð verða nú ávallt við höndina, í snjallsímanum þínum.

VR í samstarf við 1819 Torgið

Nýlega hófu VR og 1819 Torgið samstarf sem gerir afsláttarkjör fyrir félagsfólk VR aðgengilegri og þægilegri í notkun. Ekki þarf lengur að fletta tilboðum upp á vef og sýna félagsskírteini til að virkja afslætti heldur verða tilboðin nú öll á einum stað innan seilingar í snjallsímum félagsfólks.

Hvað er 1819 Torgið?

1819 Torgið er þjónustuveita sem heldur utan um afslætti, tilboð og sérkjör hjá fjölda samstarfsaðila og miðlar þjónustunni í gegnum smáforrit (app) fyrir snjallsíma sem hægt er að sækja endurgjaldslaust.
Hjá 1819 Torginu er hægt að nálgast alls kyns tilboð á vöru og þjónustu frá fjölmörgum fyrirtækjum. Hjá 1819 Torginu eru fjölmargir vöruflokkar sem innihalda afslætti og tilboð fyrir þig, fjölskylduna, heimilið og farartækið. Þú getur vaktað þá vöruflokka sem henta þér persónulega og þú færð tilkynningar í símann þegar tilboð berast inn í þá flokka sem þú hefur sérstaklega valið þér til að vakta.

Meira í boði fyrir VR félaga

VR félagar fá öll þau VR tilboð sem hingað til hafa verið í boði fyrir félagsfólk auk aðgangs að svokölluðum lykilfyrirtækjum sem bjóða föst sérkjör allt árið. Eina sem félagsfólk þarf að gera til að virkja þau kjör er að sækja appið og byrja. Þegar skráningu í 1819 Torgið er lokið sér félagsfólk að opnaður hefur verið aðgangur fyrir tvö svæði. Annars vegar svæðið „Torgið“ þar sem má finna lykilfyrirtækin og svo „VR“ svæðið þar sem tilboð til félagsfólks er að finna. Inni í þeim flokki eru fastir afslættir en einnig munu koma inn árstíðarbundin tilboð sem eru virk þrjá mánuði í senn og verður svo skipt út fyrir ný tilboð.

Hvernig get ég byrjað?

Þú sækir 1819 Torgs-appið og býrð til aðgang. Leiðbeiningar um hvernig skal skrá sig inn til að virkja forgangsaðgang verða aðgengilegar á Mínum síðum VR. Þar verður einnig kynningarmyndband þar sem sýnt er hvernig appið virkar. Þegar skráning er klár hefur þú aðgang að VR tilboðum og lykilfyrirtækjum en einnig er hægt að skoða allt annað sem er í boði fyrir notendur appsins. Þú getur út frá þínu áhugasviði sérsniðið hvenær tilboð birtast í appinu. Boðið er upp á um 200 vöruflokka ásamt þeim dögum sem notandi vill fá tilboðstilkynningar um í símann sinn og einnig er hægt að velja frá hvaða landssvæði tilboðin koma. Mjög auðvelt er að hreinsa allt sem búið er að velja og byrja upp á nýtt. Þegar þú rekst á eitthvað spennandi getur þú vistað tilboðið og virkjað það þegar þér hentar.

Kortið

Í appinu er að finna kort sem sýnir öll tilboð sem eru í boði hjá 1819 Torginu. Þannig geta notendur auðveldlega séð hvað er í boði nálægt þeim. Notendur sjá líka fljótt og örugglega hvort tilboðin eru virk þá stundina eður ei því þau eru litamerkt eftir stöðu þeirra í rauntíma. Græn eru virk og rauð eru ekki virk. Þessi hönnun gerir það að verkum að notendur þurfa ekki að fara fýluferð ef appið er notað. Fyrir þá notendur sem vilja nota eitt kort fremur en annað býður Torgið upp á þann möguleika að velja á milli Apple, Google og Waze.

Allar upplýsingar á einum stað

Notendur sjá hvaða fyrirtæki bjóða tilboð auk ítarlegra skráninga um fyrirtækin sjálf, opnunartíma, símanúmera, netfanga og slóða á vefsíður og samfélagsmiðla svo eitthvað sé nefnt. Notandi þarf því ekki að leita eftir frekari upplýsingum um fyrirtækið sem býður upp á tilboðið því þær eru allar í appinu samhliða tilboðinu sjálfu.