Almennar fréttir - 08.12.2025
VR skoðar stöðu leikskóla í Hafnarfirði
Formaður VR, Halla Gunnarsdóttir, kynnti sér leikskólamálin í Hafnarfirði nýlega en VR hefur undanfarin misseri fjallað mikið um þær umfangsmiklu breytingar sem verið er að leggja til eða innleiða í leikskólum í mörgum af stærstu sveitarfélögum á landinu.
Í Hafnarfirði hefur umhverfi leikskólanna tekið breytingum á síðustu tveimur árum en þær breytingar hafa verið unnar í samstarfi við foreldra og starfsfólk skólanna sjálfra. Valdimar Víðisson bæjarstjóri og Kristín María Thoroddsen, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar, kynntu þessar breytingar á fundi með VR og færum við þeim þakkir fyrir.
„Það var gagnlegt að sækja Hafnarfjörð heim og fræðast um þær breytingar sem hafa verið gerðar þar á starfsumhverfi leikskóla undanfarin ár. Upp úr stendur að Hafnarfjörður hefur ekki farið þá leið að auka gjaldtöku á foreldra til að reyna að stýra vistunartíma barna og ljóst er að hagsmunir og þarfir foreldra hafa verið teknir með í reikninginn. Enn á ný hvetjum við sveitarfélög til að skoða aðrar leiðir en gjaldskrárhækkanir til að gera góða leikskóla betri,“ segir Halla Gunnarsdóttir.