Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Logo 2 (1)

Almennar fréttir - 02.04.2020

Yfirlýsing frá stjórn VR vegna samnings um kaupmáttartryggingu

Á fundi stjórnar VR miðvikudaginn 1. apríl 2020 var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing vegna ágreinings í samninganefnd ASÍ um aðgerðir á vinnumarkaði vegna COVID-19 faraldursins:

COVID-19 faraldurinn hefur, á skömmum tíma, haft í för með sér mjög miklar breytingar á bæði alþjóðlegu og íslensku efnahagslífi. Ef ekki verður spyrnt við fótum blasir við efnahagshrun með tilheyrandi eyðandi afli atvinnuleysis og verðbólgu sem gæti gert að engu þann kaupmáttarávinning sem náðst hefur með ábyrgum kjarasamningum. Stjórn VR telur afar mikilvægt að allir, jafnt stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög, leggi hönd á plóg til að minnka þann skaða sem óhjákvæmilega leiðir af þessu ástandi. Stjórn VR hugnast ekki að umsömdum launahækkunum kjarasamninga þann 1. apríl 2020 verði frestað, frekar að launafólk leggi sín lóð á vogarskálarnar til að tryggja kaupmátt með því samþykkja tímabundna lækkun mótframlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði úr 11,5% í 8% gegn því að atvinnulífið haldi að sér höndum við verðhækkanir og verðbólga fari þannig ekki yfir 2,5% á árinu.

Með þessari aðgerð væri hægt að auka ráðstöfunartekjur launafólks, og þar með einkaneysluna, þótt tímabundið yrði skerðing á fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Þannig væri hægt að verja störf og lágmarka atvinnuleysi, þjóðfélaginu öllu til hagsbóta.

Auk þess er ljóst að aukin verðbólga getur verið fljót að éta upp launahækkanir sem samið hefur verið um. Tillögur VR fela í sér tryggingu á kaupmætti. Þær gera ráð fyrir því að fari verðbólga umfram ákveðin mörk taki mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði ekki neinum breytingum og verði áfram 11,5%. Haldist verðbólga hins vegar lág á tímabilinu lækki mótframlag í lífeyrissjóði einungis tímabundið.

Stjórn VR hvetur samninganefnd ASÍ til þess að endurskoða afstöðu sína til þessa máls í ljósi mjög sérstakra og viðkvæmra aðstæðna í þjóðfélaginu. Mikilvægt er að leggja til hliðar deilumál þegar nauðsyn krefur til þess að allir geti lagst á árarnar og fundið lausn. Það hafa áður blásið sterkir vindar á vettvangi ASÍ og ástæðulaust að láta slíkt stöðva okkur nú þegar ríður á að allir standi saman til að verja kjör launafólks í landinu.

Sjá samning um tryggingu kaupmáttar hér.