Vr Fanar Kringlan 2

Almennar fréttir - 29.06.2023

Yfirlýsing stjórnar VR vegna einkavæðingar Íslandsbanka

Stjórn VR telur yfirstandandi einkavæðingu Íslandsbanka vera áfellisdóm yfir öllum sem að henni komu. Stjórnvöld ákváðu að einkavæða bankann í trássi við þjóðarvilja og þau bera ábyrgð á niðurstöðunni. Skeytingarleysi stjórnenda Íslandsbanka gagnvart lögum og reglum gefur innsýn í menningu íslenska fjármálakerfisins, sem virðist fáa lærdóma hafa dregið af hruninu. Yfirlýsingar fráfarandi bankastjóra og stjórnarformanns gefa litla von um að breytingar séu í vændum á vinnubrögðum bankans, þvert á móti virðast stjórnendur telja að gagnrýni á þeirra störf sé óvægin og ósanngjörn.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að gera breytingar á bankakerfinu. Bankar eiga að þjóna samfélaginu og vera bakhjarl fyrir heimili, einstaklinga og fyrirtæki. Stjórn VR skorar á stjórnvöld að falla frá frekari áformum um sölu á eignarhlut í Íslandsbanka. Samhliða beiti stjórnvöld eignarhaldi sínu í Landsbankanum til að byggja upp banka sem þjónar fólkinu í landinu, býður ásættanleg lánakjör og skjól frá spillingu fjármálakerfisins og hárri arðsemiskröfu. Landsbankanum er þannig hægt að breyta í samfélagsbanka.

Brot Íslandsbanka við sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í bankanum eru með öllu óásættanleg. Orð eru ekki nóg og það dugar ekki að fórna bankastjóranum og halda svo áfram á sömu braut. Stjórn VR mótmælir því að einstaklingar geti gerst brotlegir við lög og reglur en þurfi ekki að bera af því kostnaðinn heldur séu himinháir reikningar sendir í formi sekta á fyrirtæki, sem neytendur greiða á endanum. Stjórn bankans telur málið það lítilvægt að nóg sé að boða til hluthafafundar rúmum mánuði eftir að upplýst var um alvarleg lögbrot. Við köllum eftir því að stjórn bankans og það starfsfólk sem ábyrgð ber á lögbrotum axli þá ábyrgð og biðji þjóðina afsökunar á háttsemi sinni. Hér þarf bæði kerfis- og kúltúrbreytingar. Fyrsta skrefið er að bankinn sýni vilja til að takast á við þessa þætti.

VR hefur átt í miklum viðskiptum við Íslandsbanka og forvera hans síðustu ár. Ef haldið verður áfram á sömu braut og stjórn bankans axlar ekki sína ábyrgð mun stjórn VR taka til ítarlegrar skoðunar að slíta viðskiptum við Íslandsbanka.

Stjórn VR
29. júní 2023