Jafnrétti

Kynbundinn launamunur innan VR er 10% samkvæmt niðurstöðum Launakönnunar 2018. Þessi munur jafngildir því að konur í VR vinna launalaust í rúman mánuð á árinu. Félagið hefur farið í fjölda herferða og birt auglýsingar og kynnti í upphafi árs 2013 Jafnlaunavottun VR. Til lengri tíma litið hefur launamunurinn dregist saman en lítið hefur gerst á allra síðustu árum. 

Kynbundinn munur

Munurinn á heildarlaunum karla og kvenna skv. launakönnun VR 201er 13,8% en þá er ekki búið að taka tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á launin; aldur, starfsaldur, starfsstétt, atvinnugrein, menntun, mannaforráð, vinnutími og hvort viðkomandi vinni vaktavinnu. Stærsti áhrifaþátturinn er vinnutíminn en vinnutími karla er lengri en kvenna, 44,2 stundir á viku á móti 41,7 stund skv. launakönnun 2018, jafnvel þó eingöngu sé verið að skoða starfsfólk í fullu starfi.

Þegar búið er að taka tillit til þessara þátta er munurinn á launum karla og kvenna 10% árið 2018 en var 15,3% árið 2000. Þessi munur er kynbundinn launamunur

Að neðan má sjá þróunina á launamun kynjanna innan VR frá árinu 2000, bæði kynbundinn mun og mun á heildarlaunum samkvæmt niðurstöðum launakannanna sem og mun samkvæmt greiddum félagsgjöldum.

Þróun á launamun kynjanna frá árinu 2000

Launamunur kynjanna er ein af helstu lykiltölum VR og birtir félagið línurit yfir þennan mun frá upphafi árs 1989. Hér fyrir neðan má sjá þróunina, bæði skv. launakönnunum félagsins og greiddum iðjgöldum.

Jafnlaunavottun VR

Í upphafi árs 2013 hleypti félagið af stokkunum Jafnlaunavottun VR sem var nýtt stjórntæki fyrir fyrirtæki til að meta eigin stöðu í jafnréttismálum og markviss leið fyrir atvinnurekendur til að uppfylla kröfur jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands.

Jafnlaunavottun VR var fyrir öll fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði, burtséð frá stéttarfélagsaðild starfsmanna.

Með útgáfu Jafnlaunavottunar vildi VR hvetja fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til að leiðrétta launamun kynjanna í eitt skipti fyrir öll. Hagsmunir launamanna og atvinnurekenda fara saman í þessari baráttu - jafnréttismál eru kjaramál.

Nú hefur VR hætt með jafnlaunavottunina en stefna okkar var að félagið myndi afhenda boltann öðrum þegar komið væri á opinbert ferli við vottun samkvæmt Jafnlaunastaðli Staðlaráðs Íslands. Smelltu hér til að lesa nánar um Jafnlaunastaðalinn.

 

Launalaus mánuður kvenna

VR hefur reiknað það út að kynbundinn launamunur í félaginu kosti konur rúmlega mánaðarlaun, þ.e. konur í VR vinna „launalaust“ í rúman mánuð á hverju ári, sé miðað við laun karla fyrir sama starf. Staðan er þó betri en hún var árið 2000, þá var fjöldi launalausra daga 56 hjá konum í VR.

Fá kynin sömu laun árið 2048 ?

Miðað við sömu þróun á launum kynjanna og við höfum séð undanfarin ár þurfa félagsmenn VR að bíða í rúm þrjátíu ár eða til ársins 2048 þar til konur og karlar innan félagsins fá sömu laun fyrir sama starf.

Hér að neðan má sjá graf sem sýnir þróun launalausra daga kvenna innan VR frá árinu 2000 og spá fyrir næstu ár. Launalausir dagar árið 2017 voru tæplega 32 talsins. Athugið að miðað er við kynbundinn launamun skv. niðurstöðum launakannanna VR frá árinu 2000. Smelltu á myndina til að sjá stærra eintak.

Hvað hefur VR gert í jafnréttismálum?

VR hefur lengi barist fyrir jafnri stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og á margvíslegan hátt. Hér er stiklað á stóru. 

  • Samið um styttri vinnutíma og aukinn sveigjanleika, árlegt launaviðtal, markaðslaun og fjölmargar bókanir í kjarasamningum um jafnrétti til launa, starfa og starfsþróunar svo fátt eitt sé nefnt
  • Gert launakannanir árlega þar er staða kvenna skoðuð sérstaklega
  • Rutt brautina fyrir nýjum fæðingarorlofslögum með því að greiða félagsmönnum 80% launa í fæðingarorlofi
  • Ítrekað farið í auglýsinga- og kynningarherferðir til að vekja fólk til umhugsunar 
  • Samþykkt jafnréttisstefnu