Fyrirtæki ársins 2020

Könnun VR á Fyrirtæki ársins 2020 stendur yfir frá 4. febrúar til 22. mars.

Veistu hvernig fyrirtækið þitt kemur út í könnun VR á Fyrirtæki ársins? Könnunin 2020 er hafin og stendur fram í miðjan mars. Allir félagsmenn VR fá senda könnunina í tölvupósti.
Vinsamlega hafðu samband við VR á netfangið vr@vr.is ef þú hefur ekki fengið könnunina senda. Einnig er hægt að taka könnunina á Mínum síðum.
Ef þú ert þegar búin/n að svara þökkum við kærlega fyrir þátttökuna.

Hvernig er Fyrirtæki ársins valið?

VR hefur kannað aðbúnað félagsmanna sinna og viðhorf þeirra árlega í meira en tvo áratugi. Allir félagsmenn VR fá senda könnunina um fyrirtæki ársins en fjöldi fyrirtækja tryggir að auki öðrum starfsmönnum sínum þátttökurétt í könnuninni, óháð því í hvaða stéttarfélagi þeir eru. Í ár fá allir starfsmenn í 130 fyrirtækjum tækifæri til að taka þátt og er könnunin því send til um 40 þúsund starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Könnun VR á Fyrirtæki ársins er þannig ein viðamesta vinnumarkaðskönnun sem gerð er á Íslandi. Sjá nánar um framkvæmdina hér.

Í könnuninni er spurt um viðhorf til níu lykilþátta í starfsumhverfi svarenda. Þættirnir eru stjórnun fyrirtækisins, starfsandi á vinnustaðnum, launakjör, vinnuaðstaða, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækisins, jafnrétti og að síðustu ánægja og stolt af vinnustaðnum. Gefin er einkunn fyrir hvern lykilþátt og saman mynda þær heildareinkunn fyrirtækis. Vægi þáttanna í heildareinkunninni er misjafnt, viðhorf til stjórnenda fyrirtækisins vegur þar þyngst. Ítarleg umfjöllun um þættina og þróun þeirra er á vefsíðu VR, www.vr.is.

Fimmtán fyrirtæki fá titilinn Fyrirtæki ársins

Fyrirtækjum er skipt í þrjá flokka eftir stærð, stærstu fyrirtækin eru þau sem eru með 70 starfsmenn eða fleiri, hjá næststærstu fyrirtækjunum eru starfsmenn frá 30 til 69 talsins og þeim minnstu eru starfsmenn færri ein 30. Fimm efstu fyrirtækin í hverjum stærðarflokki fá titilinn Fyrirtæki ársins, alls fimmtán fyrirtæki. Fyrirtækin í fimmtán efstu sætunum fá viðurkenninguna Fyrirmyndarfyrirtæki. Eingöngu fyrirtæki sem tryggja öllum starfsmönnum sínum þátttökurétt koma til greina í vali á Fyrirtæki ársins.

Ekki bara val á þeim bestu

Könnunin veitir starfsmönnum vettvang til að tala við stjórnendur sinna vinnustaða, hrósa því sem vel er gert en benda jafnframt á það sem þarf að laga. Niðurstöðurnar eru þannig mælikvarði á frammistöðu stjórnenda fyrirtækja og nýttar til að veita þeim fyrirtækjum sem standa sig vel í mannauðsmálum viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Könnunin sýnir hver staða fyrirtækisins er í augum starfsmanna og í samanburði við önnur fyrirtæki á vinnumarkaði.

En niðurstöður í könnun VR á fyrirtæki ársins eru meira en bara viðurkenning til fyrirtækja. Þær gefa félagsmönnum og starfsmönnum á almenna vinnumarkaðnum almennt upplýsingar um starfskjör í fyrirtækjum og viðhorf starfsmanna þeirra sem og þróun á vinnuaðstæðum. Þær gefa VR einnig dýrmætar upplýsingar um hvar hallar á félagsmenn og hvernig kjarabaráttan hefur skilað árangri. Niðurstöður könnunarinnar eru mikilvægt innlegg í kjaraviðræður og renna fleiri stoðum undir starfsemi og þjónustu félagsins.