Fyrirtæki ársins 2020

Könnun VR á Fyrirtæki ársins 2020 hefst í febrúar og stendur fram í mars.

Könnunin snýst ekki aðeins um að velja fyrirtæki ársins heldur veita niðurstöðurnar víðtæka og áreiðanlega mynd af stöðu mála í innra umhverfi fyrirtækisins, samanburð við fjöldamörg fyrirtæki á sömu þáttum og er því frábært vinnutæki fyrir stjórnendur til umbótastarfs.

Ætlar þitt fyrirtæki að vera með? Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.

Allir geta tekið þátt 

Könnunin er send til allra félagsmanna VR, óháð vinnustað. Til að gefa sem réttasta mynd af stöðu fyrirtækisins er mikilvægt að allt starfsfólk fyrirtækisins fái tækifæri til að taka þátt í könnuninni. Stjórnendur geta því óskað eftir því að allir fái senda könnun, óháð stéttarfélagsaðild og starfshlutfalli. Forsenda þess að fyrirtækið komi til greina í vali á Fyrirtæki ársins 2020 er að allir starfsmenn hafi tækifæri til þátttöku.

Hvernig er Fyrirtæki ársins valið?

Í maí 2020 verður tilkynnt hvaða fyrirtæki hafa orðið fyrir valinu sem Fyrirtæki ársins. Valið byggir á afstöðu starfsmanna til níu lykilþátta, sjá ítarlega umfjöllun hér. Gallup sér um framkvæmd og úrvinnslu niðurstaðna. Sjá hér ítarlega umfjöllun um framkvæmd könnunarinnar árið 2019. 

Alls fá fimmtán fyrirtæki nafnbótina Fyrirtæki ársins í þremur stærðarflokkum, fimm í hverjum flokki. Eingöngu fyrirtæki þar sem allt starfsfólk hefur tækifæri til þátttöku koma til greina í vali á Fyrirtæki ársins.

Viðurkenningar eru veittar í þessum flokkum:

  • Minni fyrirtæki - Færri en 30 starfsmenn
  • Meðalstór fyrirtæki - 30 til 69 starfsmenn
  • Stærri fyrirtæki - 70 starfsmenn eða fleiri

Fyrirmyndarfyrirtækin

Fyrirtæki sem eru í fimmtán efstu sætunum í hverjum flokki fá titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki, alls 45 talsins, og eru fyrirtækin í fimm efstu sætunum Fyrirtæki ársins. Fulltrúum og starfsmönnum þessara fyrirtækja er boðið til móttöku í maí næstkomandi þar sem tilkynnt verður hvaða fyrirtæki urðu fyrir valinu sem Fyrirtæki ársins 2020. Niðurstöður fyrirtækja sem ná 35% lágmarkssvörun verða birtar á vef VR. Lágmarksfjöldi svarenda hjá litlum fyrirtækjum er 7, sjá nánar um framkvæmd könnunarinnar.

Helmingsafsláttur af þátttökukostnaði

Fyrirtæki bera ekki kostnað vegna þátttöku starfsmanna sem eru félagsmenn í VR en greiða fyrir starfsfólk sem er utan félagsins.

VR hefur ákveðið að niðurgreiða þátttökukostnað fyrirtækja í könnuninni 2020 um helming.

Kostnaður við þátttöku starfsmanna utan VR er sem hér segir (tölur eru með afslætti en án vsk):

  • Minni fyrirtæki – 28.950 kr.
  • Meðalstór fyrirtæki – 34.950 kr.
  • Stærri fyrirtæki – 41.450 kr.

165 kr. bætast við fyrir hvern starfsmann sem ekki er í VR.

Greining á niðurstöðum

Þá geta fyrirtæki einnig keypt greiningu á niðurstöðum fyrir sitt fyrirtæki. Kostnaður við skýrslu sem sýnir niðurstöðu fyrirtækisins, samanburð við fyrri mælingar og önnur fyrirtæki er:

  • Minni fyrirtæki – 99.900 kr.
  • Meðalstór fyrirtæki – 129.900 kr.
  • Stærri fyrirtæki – 164.900 kr.

Fyrirtæki greiða fyrir þátttöku alls starfsfólks og/eða greiningu niðurstaðna beint til Gallup. Allar tölur eru án vsk. Gallup innheimtir þennan kostnað.