Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Almennar fréttir - 24.10.2018

43. þing ASÍ sett í morgun

43. sambandsþing Alþýðusambands Íslands var sett kl. 10:00 í morgun á Hilton Reykjavík Nordica með ávarpi Gylfa Arnbjörnssonar, fráfarandi forseta ASÍ. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, nýkjörinn formaður BSRB, fluttu einnig erindi.

Helstu málefni sem verða til umfjöllunar á þinginu eru meðal annars tekjuskipting og jöfnuður, jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs, tækniþróun, heilbrigðisþjónusta og húsnæðismál.

Í dag, á fyrsta degi þingsins, verður dagskrá slitið eftir ávarp kl. 14:00 og þingfulltrúar halda á baráttufund á Arnarhóli í tilefni af kvennafrídeginum. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9:00 – 17:00 og er því daglegum vinnuskyldum kvenna lokið kl. 14:55. Baráttufundur á Arnarhóli hefst kl. 15.25 og eru konur hvattar til að leggja niður störf og fylkja liði á fundinn.

100 þingfulltrúar frá Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna sitja þingið, þar af eru 87 þingfulltrúar frá VR en VR er stærsta aðildarfélag að sambandinu.