Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Almennar fréttir - 26.10.2018

Ný forysta kjörin á þingi ASÍ

43. sambandsþingi Alþýðusambands Íslands lauk í dag, 26. október en það hefur staðið yfir síðan á miðvikudag. Krafist er réttlátrar tekjuskiptingar, jafnra tækifæra og jafnaðar. Þá er krafist samfélags velferðar fyrir alla. Samfélags þar sem launafólk og allur almenningur nýtur öruggrar og góðrar heilbrigðisþjónustu og býr að traustu velferðarkerfi óháð efnahag, búsetu eða aldri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktunum þingsins. 

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, var kjörin nýr forseti ASÍ með 65,8% greiddra atkvæða en í framboði var einnig Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls starfsgreinafélags, og hlaut hann 34,2% greiddra atkvæða. Drífa er fyrsta konan til að gegna embættinu í 102 ára sögu sambandsins.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, var kjörinn 1. varaforseti ASÍ með 59,8% greiddra atkvæða en í framboði var einnig Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og formaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, og hlaut hann 40,2% greiddra atkvæða. Þá var Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, einn í kjöri til 2. varaforseta ASÍ og var hann því sjálfkjörinn.

Í miðstjórn voru kjörnir fimm fulltrúar frá LÍV en þau eru Eiður Stefánsson, Ragnar Þór Ingólfsson, Harpa Sævarsdóttir, Kristín María Björnsdóttir og Helga Ingólfsdóttir.