Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_konan_i_grindavik-5.jpg

Almennar fréttir - 18.01.2017

„Alltaf fundist gaman að vinna“

Í október sl. gaf VR út félagsskírteini til félagsmanna sinna og voru verslunarmyndir frá liðinni tíð notaðar á framhlið skírteinanna, bæði til prýði en einnig til áminningar um hversu margt hefur breyst. Ljósmyndirnar voru fengnar hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur en svo skemmtilega vildi til að ein fyrirsætan, Kolbrún Einarsdóttir, hafði samband við VR og fannst gaman að sjá mynd af sér á skírteinunum. 

VR blaðið heimsótti Kolbrúnu til Grindavíkur til að heyra hvernig verslunarstörfin gengu fyrir sig þar í bæ upp úr miðri 20. öld.

Hvenær byrjaðirðu að vinna í verslun?

„Ég byrjaði að vinna í verslun Eiríks Alexanderssonar, Eikabúð, þegar ég var 15 ára. Þetta var ungur maður sem byggði þessa verslun, um sjö árum eldri en ég, og bað hann mig að koma og leysa af eitt sumar. Þetta var nýlenduvöruverslun, aðallega með matvörur eins og kjöt, kartöflur og allt annað til heimilis. Ég var nú venjulega í fiskinum og sagði honum að tala heldur við vinkonu mína því mér fannst hún betri í þessu en ég. Hann vildi nú samt fá mig þarna í vinnu þannig að úr varð að ég fór að vinna hjá honum. Hann var svo hjátrúarfullur að ég varð að byrja að vinna á laugardegi svo að ég mætti í búðina á þeim degi en var ekki kennt neitt.“

Þú hefur þá ekki fengið neina þjálfun?

„Nei, nei maður varð bara að bjarga sér. Svo var einhver viðskiptavinurinn sem bað um ost fyrir tíu krónur. Það voru þessi stóru oststykki með rauða vaxinu. Ég skar bara til að bjarga mér eitthvert stykki og það kostaði bara tíu krónur! Ég vigtaði það ekki einu sinni því að ég kunni ekki á vigtina, þetta var svona skali á þessu (Kolbrún bendir á vigtina sem hún stendur við á gömlu myndinni). Viðskiptavinurinn kvartaði allavega ekki!"
Maður var auðvitað ekki með neina reiknivél, en maður reif sér umbúðapappír og reiknaði niður á hann. Vertíðarbátarnir keyptu líka kost hjá okkur og þá þurfti að skrifa hvern einasta hlut í bók og svo var gert upp einu sinni í mánuði.“

Manstu eftir því þegar myndin var tekin af þér í búðinni?

„Já. Myndin er tekin þegar ég er 19 ára, 3. apríl 1962, og með mér á myndinni er Valgerður Ingólfsdóttir heitin en hún var fjórum árum yngri en ég og er því 15 ára gömul á myndinni.“

Hvernig var vinnutíminn?

„Við unnum frá níu til sex. Það var vaninn en opið var fram að hádegi á laugardögum. Við vorum yfirleitt þrjú í búðinni og svo kom mamma eigandans, fullorðin kona, og skúraði.
Eigandinn fór í bæinn einu sinni í viku, og þá var hún vinkona mín að vinna með mér sem ég hafði bent eigandanum á í byrjun, og þá leyfðum við okkur að fá okkur eina kók og Prins Póló en aldrei neitt þar fyrir utan. Það voru jólin hjá okkur þegar hann fór í bæinn!“

Hefurðu alltaf búið í Grindavík?

„Já og hér á ég tvær dætur og barnabörn og barnabarnabörn.“

Hvað fórstu svo að gera eftir verslunarstörfin?

„Það var símstöðin, draumastarfið mitt, og þar var ég í 40 ár. Svo skildu Póstur og sími og þá var þetta bara pósthús og mér fannst alveg jafn gaman að vinna á pósthúsinu. Svo bar ég út Morgunblaðið í 30 ár með þessu. Ég hætti að vinna áramótin 2010-11. Þá lögðu þeir pósthúsið af og fluttu það í Landsbankann.“

„Mér hefur fundist gaman að vinna í öllu hvort sem það var fiskur eða verslun eða hvað, þó ég hefði ekki endilega verið til í að vinna alla tíð í fiski.“

 

Gamla myndin af Kolbrúnu og Valgerði Ingólfsdóttur