Vr Fanar 1

Almennar fréttir - 07.03.2024

Atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar

Kjörstjórn VR auglýsir hér með almenna leynilega rafræna atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar sem mun ná til allra starfa hjá farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli sem unnin eru samkvæmt sérkjarasamningi Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair á Keflavíkurflugvelli og VR sem gilti frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024.

Atkvæði greiða eingöngu þeir félagar sem boðunin tekur til, sbr. framangreint.

Vinnustöðvunin felur í sér að störf skuli lögð niður (verkfall) sem hér segir:

  • Frá kl. 00:01 föstudaginn 22. mars 2024 til kl. 23:59 sunnudaginn 24. mars 2024.
  • Frá kl. 00:01 miðvikudaginn 27. mars 2024 til kl. 23:59 fimmtudaginn 28. mars 2024.
  • Frá kl. 00:01 sunnudaginn 31. mars 2024 til kl. kl. 23:59 þriðjudaginn 2. apríl 2024.
  • Frá kl. 00:01 föstudaginn 5. apríl 2024 til kl. 23:59 þriðjudaginn 9. apríl 2024.
  • Ótímabundin vinnustöðvun frá kl. 00:01 föstudaginn 12. apríl 2024.

Atkvæðagreiðsla hefst klukkan 09:00 mánudaginn 11. mars 2024 og henni lýkur klukkan 12:00 á hádegi fimmtudaginn 14. mars 2024. Atkvæðagreiðslan fer fram á vef félagsins.

Samninganefnd VR samþykkti á fundi sínum þann 5. mars 2024 að efna til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun meðal félagsfólks VR sem starfar hjá Icelandair í farþega- og hleðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Sjá tillögu samninganefndar.

Allt kosningabært félagsfólk VR sem starfar við farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli skv. ofangreindum sérkjarasamningi fær send kjörgögn í tölvupósti á næstu dögum ásamt hlekk á rafrænan atkvæðaseðil. Til að greiða atkvæði þarf rafræn skilríki. Félagsfólk sem ekki er með rafræn skilríki getur kosið á skrifstofu félagsins að Krossmóa 4a, Reykjanesbæ, á opnunartíma skrifstofunnar.

Félagsfólk sem ekki er á kjörskrá en telur sig hafa atkvæðisrétt getur sent erindi þess efnis til kjörstjórnar VR, kjorstjorn@vr.is eða haft samband í síma 510-1700.

7. mars 2024
Kjörstjórn VR