Vr Fanar 1

Almennar fréttir - 06.03.2024

Samninganefnd VR samþykkir atkvæðagreiðslu um verkfall

Samninganefnd VR samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi að efna til atkvæðagreiðslu um verkföll meðal félagsfólks VR sem starfar í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða starfsfólk Icelandair sem sinnir meðal annars innritun, töskumóttöku, brottförum og þjónustu vegna týnds farangurs fyrir Icelandair og fleiri flugfélög. Starfsfólkið starfar eftir sérkjarasamningi Icelandair sem tekur breytingum samhliða aðalkjarasamningi VR og SA og er því undir í yfirstandandi kjaraviðræðum.

VR, fyrir hönd starfsfólksins, hefur um langa hríð reynt að knýja á um breytingar á kjörum þessa hóps, en einnig á fyrirkomulagi vinnunnar sem sker sig úr íslensku kjarasamningsumhverfi. Um helmingur þeirra ríflega 150 sem starfa við farþegaafgreiðslu Icelandair er gert að lækka starfshlutfall sitt yfir vetrarmánuðina úr 100% í 76% og nýtur ekki sjálfsagðs réttar til samfellds vinnutíma. Fólk sem sinnir störfum tengdum flugi í Keflavík vinnur alla jafna á 12 tíma vöktum. Starfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair mætir hins vegar til vinnu að vetri milli 5 og 9 að morgni, er síðan sent heim og gert að mæta aftur til vinnu milli 13 og 17. Þetta er óviðunandi vinnufyrirkomulag og mikilvægt að ná fram leiðréttingu á því.

Sérkjarasamningur við Icelandair er eitt af þeim atriðum sem standa út af í kjaraviðræðum VR og SA. Önnur atriði lúta meðal annars að launalið, forsenduákvæðum og ýmsum kjara- og réttindamálum. Það er von samninganefndar VR að samningar takist um þessi atriði og að ekki þurfi að koma til verkfalla. Hins vegar hefur gangur viðræðna leitt til þess að samninganefnd telur nauðsynlegt að kanna vilja félagsfólks sem starfa við farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli til vinnustöðvunar.

Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun verði auglýst á morgun, fimmtudag, og að atkvæðagreiðsla hefjist nk. mánudag kl. 9.00 og standi í þrjá daga. Verði vinnustöðvun samþykkt er gert ráð fyrir að verkföll hefjist föstudaginn 22. mars nk.