Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Throun

Almennar fréttir - 20.01.2023

Endalaus þróun – á þetta við um mitt starf?

Hugtakið þróun hefur talsvert borið á góma undanfarin misseri. Við lifum í síbreytilegu samfélagi þar sem áherslubreytingar og ný verkfæri sem styðja við störf almennt líta dagsins ljós nokkuð ört og jafnvel of ört fyrir mörg. Til að takast á við og geta nýtt þessa þróun verður fólk oftar en ekki að tileinka sér ný vinnubrögð og bæta þannig við sig aukinni hæfni. En hvernig veit fólk hverju skal bæta við og hvernig það getur styrkt sig til að takast á við þessar áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér?

Hæfniþættir framtíðarinnar
Á nokkurra ára fresti gefur The World Economic Forum, eða Alþjóðaefnahagsráðið, frá sér skýrslu sem kallast „The Future of Jobs Report”. Í þessum skýrslum kortleggur ráðið framtíð starfa og birtir þá hæfniþætti sem munu teljast mikilvægir fyrir störf framtíðarinnar, tækninýjungar og innleiðingu þeirra í alþjóðasamfélaginu út frá þeim atburðum eða breytingum sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina. Ráðið hefur gefið út tíu mikilvægustu hæfniþættina fyrir árið 2025. Meðal þessara hæfniþátta er virk þátttaka í lærdómsferli og að kynna sér lærdómsaðferðir (e. Active learning and learning strategies). Þess ber að geta að hæfniþátturinn gagnrýnin hugsun er bæði á lista yfir mikilvægustu hæfniþætti fyrir árið 2020 og 2025.


Smelltu á myndina til að stækka hana

Það vekur athygli að hæfniþættir sem lúta að sjálfsstjórn starfsfólks eru að ryðja sér til aukins rúms og má þar nefna seiglu, streituþol og sveigjanleika (e. resilience, stress tolerance and flexibility). Þessa mikilvægu persónulegu hæfniþætti er því vert að hafa til hliðsjónar þegar einstaklingar huga að eigin starfsþróun.

Möguleikar til eigin starfsþróunar eru margir. Á vefsíðu VR er meðal annars að finna sérstaka síðu helgaða starfsþróun þar sem félagsfólk getur aflað sér upplýsinga og nýtt sér verkfæri til að huga að hæfniaukningu sinni. Í sumum tilvikum fylgir þessu kostnaður og hafa starfsmenntasjóðir VR oftar en ekki stutt dyggilega við félagsfólk sitt. Styrkjamöguleikar sjóðanna eru nokkrir sem meðal annars má sjá í útlistun á leiðunum þremur hér til hliðar. Til viðbótar við þær mögulegu leiðir sem færar eru þarf að huga að því hvað telst styrkhæft í sjóðina og þá flokkun má sjá hér neðar í töflu félagsfólki VR/LÍV til frekari útskýringar.

Greinin birtist fyrst í 2. tbl. VR blaðsins árið 2022