Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Almennar fréttir - 01.05.2021

Endurreisn á kostnað launafólks?

Staðreyndir og tölur virðast litlu skipta eða flækjast fyrir þegar hagsmunasamtök fyrirtækja og viðskiptalífsins komast í gjallarhorn fjölmiðla. Ef marka má málflutning talsmanna sérhagsmuna undanfarið er hækkandi verðbólga og hátt atvinnuleysi málað upp sem afleiðing síðustu kjarasamninga og algjörlega skautað framhjá augljósum afleiðingum Covid veirunnar á breytta heimsmynd, ferðaþjónustuna, vöruskort eða áhrifa á framleiðslu og verðlag erlendis frá vegna heimsfaraldursins. Einnig þá þætti er vega þyngst í vísitölugrunni er snúa að hækkun húsnæðisverðs og verðlags.

Það er óþolandi að geta ekki tekið upplýsta og sanngjarna umræðu um þau gríðarlega mikilvægu viðfangsefni sem þjóðin stendur frammi fyrir. Verkefni og áskoranir sem kalla á samstöðu ólíkra hópa en ekki fjarstæðukennda orðræðu sem engu skilar nema togstreitu og sóun á dýrmætum tíma.

Íslendingar eru í startholunum fyrir opnun landsins og endurreisn ferðaþjónustunnar. Sumir vilja meina að launafólk eigi að taka á sig kostnaðinn við þá endurreisn, eins og því miður hefur áður gerst. Kunnuglegt stef er farið að hljóma um að launahækkanir síðustu missera séu þess eðlis, að þær stefna framtíðinni í hættu og ógna endurreisninni.

Ekki megi því hrófla við laununum frekar, endurreisnin á að vera á forsendum fyrirtækjanna.

Staðreyndin er sú að innistæða er fyrir því að bæði launafólk og fyrirtæki njóti góðs af þegar við réttum úr kútnum. Þeir sem hafa talað fyrir of háum launum eru að tala gegn sínum viðskiptavinum. Ef viðskiptavinir, sem er launafólk í þessu landi, hafa ekki sterkan kaupmátt þá geta þeir ekki farið út að borða, endurnýjað húsnæði, tekið í gegn eldhúsið, keypt sér bíl eða reiðhjól, jafnvel hellulagt planið eða ferðast innanlands. Við hefðum aldrei komist það vel í gegnum COVID tímabilið eins og raunin er nema vegna þess að hér er sterkur kaupmáttur.

Ef ekki væri fyrir kröftugan kaupmátt væri verslunin á allt öðrum stað og þjóðfélagið allt. Mörg fyrirtæki keppast við að lýsa því yfir að salan hafi aldrei verið betri – langt umfram væntingar. Hagnaður hefur aukist og fjölmiðlar sem fjalla um viðskipti eru uppfullir af fréttum af góðri afkomu fyrirtækja. Verslanir áttu margar hverjar sitt besta ár á síðasta ári þrátt fyrir að laun hafi verið hækkuð eins og samið var um í kjarasamningum. Vöxtur íslenskrar verslunar milli áranna 2019 og 2020 var 11% þegar litið er til innlendrar og erlendrar kortaveltu. Aukning mælist í flestum vöruflokkum milli ára, samkvæmt rannsóknarsetri verslunarinnar, þrátt fyrir 60% samdrátt í verslun erlendra ferðamanna. Ef ekki væri fyrir sterkan kaupmátt launafólks á Íslandi þá værum við ekki að sjá þennan vöxt.

Fyrirtæki í kauphöllinni eru einnig að gera það gott og hlutabréf hækka. Þegar þetta er skrifað stendur hlutabréfavísitalan í rúmlega 3.060 og hefur hækkað um 40% frá því áður en Covid skall á. Á þessu ári hefur hlutabréfavísitalan hækkað um 20% þrátt fyrir að launataxtar hafi hækkað um 24.000 kr. um síðustu áramót. Arður er greiddur út þrátt fyrir umræðu um erfiða stöðu í efnahagslífinu og dómsdagsspár sumra um að launahækkanir séu að sliga fyrirtækin. Hlutabréfamarkaðurinn er greinilega ekki sammála því að laun hér á landi séu of há.

Íslendingar eru bjartsýnir, væntingarvísitala Gallup hefur verið á hraðri uppleið frá hausti 2020. Og ef það dugar ekki til getum við spurt stjórnendur hvaða augum þeir líta framtíðina. Samkvæmt umfjöllun á vef SA um miðjan mars síðastliðinn, um reglubundna könnun samtakanna, telja 62% stjórnenda að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, 13% að þær verði verri og 25% að þær verði óbreyttar.

Sumir hafa haldið því fram að mikið atvinnuleysi sé til komið vegna hárra launa! Þessir sömu aðilar virðast ekki vita að fjöldi fólks missti vinnuna vegna COVID og meginhluti af því atvinnuleysi sem hér er skýrist af því.

En við sjáum vonandi fram á bjartari tíma þegar búið verður að bólusetja þorra þjóðarinnar og hægt verður að opna landamærin fyrir ferðamönnum. Þá er ljóst að ráða þarf mikinn fjölda fólks til vinnu til að þjóna þeim ferðamönnum sem hingað koma.

Við erum að sjá fyrir endann á þessu en verðum að vera sammála um að grípa þá sem verst hafa orðið úti, fólkið líka, ekki bara fyrirtækin. Það verður engin viðspyrna án vinnandi fólks eða viðspyrna sem hefur aðeins drif á öðru afturhjólinu. Við þurfum að taka höndum saman og milda höggið hjá fjölskyldum sem orðið hafa fyrir atvinnumissi og tekjufalli. Atvinnulífið hefur fengið mikið og gengið alltof langt. Ítök hagsmunaafla gagnvart stjórnmálunum raungerist í sértækum stuðningi stjórnvalda vegna Covid sem er áætlaður rúmlega 288 milljarðar til fyrirtækja en um 46 milljarðar til einstaklinga og heimila. Þá er ekki taldar með tekjur ríkisins vegna úttektar á séreignarsparnaði sem eru að nálgast 10 milljarða.

Það hlýtur öllum að vera ljóst að ef ekki verður viðhorfsbreyting og skilningur stjórnvalda og atvinnulífsins á alvarlegri stöðu þeirra sem eru án atvinnu, og nauðsyn þess að jafna leikinn, blasir við að þetta verður veganestið inn í komandi Alþingiskosningar. Þar höfum við kjósendur tölurnar og forgangsröðun stjórnvalda fyrir framan okkur á leið inn í kjörklefann.

Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag launafólks í dag, 1. maí – Baráttan heldur áfram!

Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.