Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_logo-2.jpg

Almennar fréttir - 28.03.2019

Frá aðalfundi VR 2019

Aðalfundur VR var haldinn í gær, miðvikudaginn 27. mars. Farið var yfir ársskýrslu og ársreikning félagsins fyrir árið 2018. Tekjur félagsins fyrir árið 2018 voru 4,2 milljarðar króna. Hreinar tekjur til ráðstöfunar voru 375 milljónir en árið 2017 voru það 956 milljónir króna sem skýrist af mikilli aukningu greiðslna úr sjúkrasjóði og minni ávöxtun.
Félagsmönnum fjölgaði um 2,3% á árinu 2018 og um áramót voru þeir orðnir 36.029. Ljóst er að þeim mun halda áfram að fjölga á árinu því aðalfundurinn samþykkti einróma sameiningu VR og Verslunarmannafélags Suðurnesja.

Stjórn VR lagði fram þrjár tillögur að lagabreytingum. Fyrsta tillaga sneri að því að varamenn í stjórn VR sætu í trúnaðarráði, eins og aðalmenn í stjórn. Önnur tillagan var um hæfi stjórnarmanna og að þeir mættu ekki vera starfandi sem framkvæmdastjórar fyrirtækis, stofnunar eða félags þar sem réttarstaða framkvæmdastjóra rekstrar telst sú sama og sem hann væri sjálfur atvinnurekandi. Þriðja tillagan var breyting á félagssvæði VR við sameiningu VS við félagið og telur það nú einnig til Reykjanesbæjar, Grindavíkurbæjar, Suðurnesjabæjar og sveitafélagsins Voga. Allar þrjár tillögur stjórnar voru samþykktar einróma.

Þá var borin upp tillaga að breytingu á 10.gr. reglugerðar Sjúkrasjóðs VR en hún lýtur að því að fjöldi daga í greiðslutímabili sjúkradagpeninga sé ákvarðaður af stjórn VR hverju sinni svo ekki þurfi að bíða eftir aðalfundi til að bregðast við stöðu sjóðsins hverju sinni. Var tillagan samþykkt einróma.

Borin var upp tillaga að nýrri reglugerð Orlofssjóðs VR og var hún samþykkt einróma. Tillöguna má sjá í heild hér.

Lýst var yfir kjöri stjórnar og trúnaðarráðs en kosningar í félaginu voru haldnar í mars. Niðurstöður kosninga má sjá hér. Önnur aðalfundarstörf voru tekin fyrir.

Smelltu hér til að skoða ársskýrslu félagsins 2018-2019
Smelltu hér til að skoða ársreikning félagsins 2018