Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
VR 130 Ara Timinn

Almennar fréttir - 30.05.2022

Fyrir hverja er VR?

Stéttarfélagið VR er opið öllu verslunar- þjónustu- og skrifstofufólki á starfssvæðum félagsins um landið og því getur launafólk á þessum starfssviðum orðið félagsmenn VR.

Félagsfólk getur sótt til félagsins aðstoð við túlkun á kjarasamningum þess, aðstoð við útreikninga á launum og innheimtu, lögfræðiaðstoð tengda kjaramálum, niðurgreiðslu á námi og námskeiðum auk ýmissar annarrar þjónustu. Þá starfrækir félagið öfluga sjóði eins og Sjúkrasjóð VR, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks og VR varasjóð.

Sjúkrasjóður

Sjúkrasjóður VR greiðir sjúkradagpeninga þegar launatekjur VR félaga falla niður vegna veikinda. Ef VR félagi verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss og hefur fullnýtt rétt sinn frá atvinnurekanda getur hann fengið sjúkradagpeninga sem nema 80% af launum hans í allt að 7 mánuði hjá Sjúkrasjóði VR.

Sjúkrasjóður VR aðstoðar félagsfólk

 • Sjúkradagpeningar eftir að veikindarétti lýkur – 80% af launum í allt að 210 daga.
 • Sjúkradagpeningar vegna slysa í frítíma – 80% af launum.**
 • Sjúkradagpeningar vegna áfengismeðferðar – 80% af launum. Greiddir í allt að 120 daga (4 mánuði).
 • Dagpeningar vegna alvarlegra veikinda maka – 80% af launum í allt að 90 daga.
 • Styrkir, t.d. vegna tæknifrjóvgunar, örlitameðferðar og ferðakostnaðar vegna læknis eða tannlæknis.
 • Örorkubætur vegna slyss í frítíma ef bætur kom ekki annars staðar frá vegna lögbundinna ábyrgðartrygginga (vegna slysa sem má rekja til vélknúinna ökutækja).
 • Dánarbætur.

Sjá nánari upplýsingar hér.

** Slysabætur greiðast ekki ef bætur koma annars staðar frá vegna lögbundinna ábyrgðartrygginga.

Varasjóður

VR varasjóður – þín eign

Allir VR félagar sem greiða félagsgjald til VR safna réttindum í svokallaðan VR varasjóð. Lagt er inn í hann árlega eftir aðalfund og uppfærist inneign í kjölfarið. Ef VR félagi hættir í félaginu getur hann áfram nýtt réttindainneign sína í sjóðnum í tiltekinn tíma.

Greiðslur

Endurgreiðsla úr VR varasjóði fer eftir inneign hvers og eins félagsmanns. Greiðslur úr sjóðnum eru almennt staðgreiðsluskyldar og er staðgreiðsla dregin af fjárhæð fyrir útborgun. Staðgreiðsla skatta er tekin af styrkupphæð úr VR varasjóði skv. skattþrepi 1.

Þrjár undantekningar eru frá því og eru þær tilteknar hér að neðan:

 • Líkamsrækt og endurhæfing (sjúkraþjálfun, nudd, nálastungur og kírópraktor) að hámarki kr. 65.000 á ári (m.v. árið 2022).
 • Greiðsla á gistikostnaði í orlofi að hámarki kr. 61.000 á ári. Þetta á einungis við um greiðslu fyrir gistingu, s.s. orlofshús, hótel eða gistiheimili.
 • Starfstengt nám, styrkir úr sjóðnum vegna starfsnáms.

VR varasjóðurinn nýtist:

 • Til kaupa á líkamsræktarkorti.
 • Til kaupa á hjálpartækjum, t.d. gleraugum, heyrnartækjum og fleiru.
 • Vegna endurhæfingar, t.d. sjúkraþjálfunar.
 • Vegna læknis- og lyfjakostnaðar.
 • Til kaupa á menntunarþjónustu.
 • Til kaupa á orlofstengdri þjónustu VR og fleiru.

Skoðaðu inneign þína í sjóðnum á Mínum síðum á vr.is.

Starfsmenntasjóðir

Félagsfólk VR getur sótt um styrki vegna starfstengds náms, tómstundanáms og ferðakostnaðar vegna starfstengds náms/námskeiða og ráðstefna.

Á Mínum síðum á vr.is getur félagsfólk VR skoðað rétt sinn og sent inn rafræna umsókn.

 • Félagsfólk getur sótt um starfstengda styrki en undir slíka styrki falla til dæmis starfstengd námskeið, almennt nám til eininga, aukin réttindi, ráðstefnur sem tengjast starfi umsækjanda og fleira.
 • Félagsfólk getur einnig sótt um tómstundastyrki en undir tómstundastyrki falla almenn námskeið sem hafa skilgreint upphaf, endi og leiðbeinanda. Aðeins er hægt að sækja um styrk vegna námskeiða sem haldin eru innanlands.
 • Þá getur félagsfólk einnig sótt um ferðastyrki þurfi það að ferðast meira en 50 km til þess að komast frá heimili til fræðslustofnunar.
 • Félagsfólk og fyrirtæki geta sótt um sameiginlegan styrk í sjóðinn ef starfstengt nám félagsmanns kostar 200.000 kr. eða meira. Þá er réttur einstaklings og réttur fyrirtækis nýttur á móti hvor öðrum. Umsókn er afgreidd eftir reglum sjóðsins um starfstengda styrki.

Nánari upplýsingar má finna á vef VR undir Styrkir & sjóðir.