Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Bl22

Almennar fréttir - 24.05.2022

Hver spáir fyrir framtíðarhæfni starfsfólks?

Alþjóðaefnahagsráðið (The World Economic Forum) er sjálfstæð alþjóðastofnun sem sérhæfir sig í greiningu á framtíðarhæfni á vinnumarkaði. Stofnunin var sett á laggirnar árið 1971 og er staðsett í Genf í Sviss. Hún er ekki bundin neinum sérhagsmunasamtökum og starfar ekki í hagnaðarskyni. Starfsfólk hennar reynir að gæta hlutleysis í störfum sínum og mikið kapp er lagt á að vinna út frá siðferðislegum- og vitsmunalegum heilindum.Stofnunin vinnur í samstarfi við opinbera- og einkageirann við að greina framtíðarhæfni starfsfólks í takti við örar breytingar á vinnumarkaði. Greining á framtíðarhæfni er til þess gerð að fræðsluaðilar og menntastofnanir geti aðlagað námsefni sitt og framboð að þeirri þörf og hæfni sem viðeigandi er á vinnumarkaði hverju sinni.

Stofnunin fær til liðs við sig leiðtoga sem eru leiðandi í stjórnmálum, viðskiptum og ólíkum menningargeirum til að ákveða hvaða málefnum hinar ýmsu atvinnugreinar ættu að huga að, nær og fjær, svæðisbundið sem og á heimsvísu. Einnig er að unnið að því að leita lausna á þeim flóknu áskorunum sem blasa við heiminum hverju sinni en stofnunin vinnur að því að ýta undir frumkvöðlastarfsemi sem getur bætt almannahagsmuni á heimsvísu.

Alþjóðaefnahagsráðið gefur út skýrslu á nokkurra ára fresti sem kallast „The Future of Jobs Report”. Í þessum skýrslum, kortleggur ráðið framtíð starfa, í samstarfi við atvinnurekendur og birtir þá hæfniþætti sem munu teljast mikilvægir fyrir störf framtíðarinnar, tækninýjungar og innleiðingu þeirra í alþjóðasamfélaginu út frá þeim atburðum eða breytingum sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina.

10 mikilvægustu hæfniþættirnir 2020

  1. Hæfni til að leysa úr flóknum vandamálum (e. Complex Problem Solving)
  2. Gagnrýnin hugsun (e. Critical Thinking)
  3. Sköpunargleði (e. Creativity)
  4. Mannauðsstjórnun (e. People Management)
  5. Hæfni til að samhæfa störf sín við aðra (e. Coordinating with Others)
  6. Há tilfinningagreind (e. Emotional Intelligence)
  7. Búa yfir góðri dómgreind og hæfni til ákvarðanatöku (e. Judgment and Decision Making)
  8. Þjónustulund (e. Service Orientation)
  9. Hæfni í samningaviðræðum (e. Negotiation)
  10. Sveigjanleiki í hugsun (e. Cognitive Flexibility)

Sjá meira hér.

10 mikilvægustu hæfniþættirnir 2025

  1. Greinandi hugsun- og nýsköpun (e. Analytical thinking and innovation)
  2. Virk þátttaka í lærdómsferli og að kynna sér lærdómsaðferðir (e. Active learning and learning strategies)
  3. Hæfni til að leysa úr flóknum vandamálum (e. Complex problem-solving)
  4. Gagnrýnin hugsun og greiningarhæfni (e. Critical thinking and analysis)
  5. Sköpunargleði, frumleiki og frumkvæði (e. Creativity, originality and initiative)
  6. Leiðtogahæfni og geta til að hafa félagsleg áhrif (e. Leadership and social influence)
  7. Tækninotkun, tæknivöktun og tæknistjórnun (e. Technology use, monitoring and control)
  8. Tæknihönnun og forritun (e. Technology design and programming)
  9. Seigla, streituþol og sveigjanleiki (e. Resilience, stress tolerance and flexibility)
  10. Rökhugsun, lausnamiðuð hugsun og hæfni til að vinna úr flóknum hugmyndum (e. Reasoning, problem-solving and ideation)

Sjá meira hér. 

Í þessum skýrslum má meðal annars finna útlistun á 10 hæfniþáttum starfa sem Alþjóðaefnahagsráðið telur mikilvæga í framtíðinni. Sem dæmi má nefna að getan til að leysa úr flóknum vandamálum er einn þeirra hæfnisþátta sem atvinnurekendur trúa að muni áfram vera mikilvægur á næstu árum, en þessi hæfniþáttur hefur verið á lista hjá stofnuninni yfir mikilvæga hæfniþætti síðan árið 2016.

Aðrir hæfniþættir sem eru að ryðja sér til rúms lúta meðal annars að sjálfsstjórn starfsfólks. Má þar nefna virka þátttöku í lærdómsferli, seiglu, streituþol og sveigjanleika. Hér fyrir neðan má sjá hæfniþætti síðustu og komandi ára samkvæmt Alþjóðaefnahagsráðinu:

Þar sem margir þessara hæfniþátta snúa að sjálfsstjórn og persónulegri hæfni fólks þá er brýnt að hver og einn einstaklingur taki þátt í eigin starfsþróun, hugi að hæfni sinni og hafi þessa mikilvægu hæfniþætti sér til hliðsjónar.

Þessi grein birtist fyrst í 1. tbl. VR blaðsins 2022. Smelltu hér til að lesa blaðið.