Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Selfoss Fyrsti Leigutakinn

Almennar fréttir - 28.06.2021

Fyrstu íbúðir Bjargs á Suðurlandi afhentar

Í nýliðinni viku afhenti Bjarg íbúðafélag 14 nýjar íbúðir á Selfossi. Um er að ræða tvö tveggja hæða hús á Selfossi, svokölluð kubbahús, ásamt sameiginlegri frístandandi hjólageymslu. Húsin eru bæði vistvænar og endingagóðar timburbyggingar. Óhætt er að segja að smíði húsanna hafi gengið vel en einungis er um hálft ár liðið frá fyrstu skóflustungunni þann 4. desember sl.

Aðilar frá stéttarfélögunum á Selfossi og bæjarstjóri Árborgar litu við til að sjá íbúðirnar og hittu þar fyrir fyrsta íbúa hússins, auk þess sem Kolbrún Júlía Erlendsdóttir, fulltrúi VR á svæðinu, færði íbúanum pottaplöntu.

Leiðarljós leigufélagsins Bjargs er að tryggja leigutökum hagstæða leigu og öruggt húsnæði til langs tíma. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og varaformaður stjórnar Bjargs, fagnar uppbyggingu Bjargs á Suðurlandi og er bjartsýnn á áframhaldandi vöxt félagsins enda óhagnaðardrifin leigufélög líkt og Bjarg löngu tímabær viðbót við leigumarkaðinn á Íslandi.