Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Ragnar Vr Portret 2019 1

Almennar fréttir - 06.12.2021

Hátíðarvaktin?

VR stendur fyrir vitundarátakinu „Þriðja vaktin” sem er ætlað að vekja athygli á þeirri hugrænu byrði sem verkstjórn heimilisins er og áhrifum hennar á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og langtímaáhrifum hennar á afkomu og andlega líðan. Ég hef velt þessari hugrænu byrði mikið fyrir mér, bæði hvernig þetta er hjá okkur Guðbjörgu konunni minni og líka hvernig þetta var í „gamla daga”.

Sem barn ólst ég upp í Breiðholtinu, í hverfi sem byggt var upp í húsnæðisátaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að bregðast við ófremdarástandi á húsnæðismarkaði. Mamma, blessuð sé minning hennar, var sjúkraliði á Barnaspítala hringsins og pabbi var bílstjóri hjá Ölgerðinni. Það var ævintýri líkast að alast upp í Breiðholtinu, hverfi sem uppfullt var af barnafjölskyldum af milli- og lægri stéttum samfélagsins. Samheldni einkenndi lífið í Breiðholtinu þótt það hafi af sumum verið álitið harkalegt og óvægið. Félagsleg staða margra sem þar bjuggu var afar bágborin þó að flestir hafi borið sig vel. Mér er það enn í fersku minni hvernig lífsins spilum var misskipt þá og það dregur fram hversu ójafnt er gefið enn í dag.

Mamma sá að mestu um heimilið því pabbi keyrði utanbæjarbílinn fyrir Ölgerðina og varði því löngum vinnudögum úti á landi að keyra út ölið eins og það var kallað. Það kom því í hlut mömmu að taka á sig þá hugrænu byrði sem við höfum skilgreint í dag sem þriðju vaktina. Ég get ekki sagt að ég hafi verið auðvelt barn í uppeldi og umgengni. Í raun alveg snarbrjálaður ef ég ætti að finna einhvern kómískan mælikvarða og líklega hefði ég fengið einhverja af þeim fjölmörgu greiningum sem til eru í dag hefðu þær verið gerðar á þessum tíma. Þetta gerði samskipti við skóla og allt utanumhald heimilisins mun erfiðara en ætla mætti undir venjulegum kringumstæðum. En hvað var svo sem venjulegt við Breiðholtið á þessum tíma? Mamma stóð þessa vakt af mikilli ást og alúð en þó kom fyrir að hún brotnaði eftir fundi með kennurum sem voru að bugast eða öðrum foreldrum eða hinu opinbera eftir strákapör vinahópsins.

Í aðdraganda jóla var mikið um að vera og mikið skipulag í kringum allt. Jólahreingerningar og jólaskreytingar, jólagjafirnar og jólakortin, jólabaksturinn og jólafötin, jólaklippingin og jólamaturinn, jólaböllin og jólaveislurnar þar sem stórfjölskyldurnar hittust og áttu sínar góðu stundir. Mikið var skipulagið og stundum við þröngan fjárhagslegan kost sem við systkinin vorum þó aldrei látin finna fyrir.

Á meðan pabbi vann frá morgni til kvölds (fyrsta vaktin) þar sem eftirspurn eftir öli var margföld í aðdraganda hátíða var mamma að vinna á Barnaspítalanum. Stundum vann hún á jólunum og sinnti heimilinu (önnur vaktin) og skipulagði allt sem þurfti að gera svo allir gætu hringt inn jólin með hreint borð, hreina veggi og loft, hreint á rúmunum og í hreinum nýpressuðum jólafötum.

Hvernig er þetta í dag?

Auðvitað hefur mikið breyst síðan ég var barn og við Guðbjörg erum með óskrifað kerfi til að deila annarri vaktinni á milli okkar en þegar kemur að þriðju vaktinni er það meira snúið. Hugræn byrði er annars konar byrði og við Guðbjörg hugsum ekki eins þegar kemur að skipulagningu og verkstjórn heimilisins í aðdraganda stórhátíða. Ég var til dæmis að velta fyrir mér hversdagslegu skipulagi um daginn, sem ég er stöðugt að reyna að bæti mig í, þegar ég fékk spurninguna „hvenær eigum við að setja upp jólaskrautið?“ Og þegar hún sagði mér að hún væri búin að redda pössun fyrir þennan jólaviðburðinn en væri í vandræðum með pössun fyrir einhvern annan jólaviðburð og ég var búinn að steingleyma að við værum að fara hitt og þetta!

Ég fékk fyrstu jólaspurninguna í september sem var á þá leið hvort við ættum að fara norður um jólin og var búinn að fá nokkrar tillögur að jólagjöfum fyrir börnin í byrjun nóvember. Hvernig er þetta hægt? Hver hugsar svona? En ég veit vel að hún er miklu skipulagðari en ég eða skipuleggur sig miklu lengra fram í tímann en ég geri. Er þetta ekki bara lýsandi dæmi um hvernig hugræn byrði fer ósjálfrátt á herðar þess sem tekur frumkvæðið í byrjun?

Þarf þetta að vera svona? Getum við ekki deilt þessari hugrænu byrði sem þriðja vaktin er? Þetta er vissulega ekki einfalt en með upplýstri umræðu og því að vera meðvitaður um það andlega álag sem fylgir þriðju vaktinni tekst okkur mögulega að komast að rót vandans um óútskýrðan launamun kynjanna, kannski tekst það og kannski ekki, en það er þess virði að reyna. Þriðja vaktin hefur opnað augu okkar Guðbjargar upp á gátt. Við erum að skilja, ekki að borði og sæng samt, að þetta er miklu stærra mál en við gerðum okkur grein fyrir í upphafi.

Þetta er auðvitað bara einn angi þess að deila hugrænni byrði. Sumir burðast með þessa byrði einir og án aðstoðar eða möguleika á að deila henni með öðrum. Byrði sem getur verið langt umfram það sem við teljum eðlilegt skipulag heimilis og tómstunda barna. Fjárhagsáhyggjur eða húsnæðisóöryggi, sérþarfir barna eða umönnun nákominna og öll sú óvissa og viðbótarálag sem skapast í kringum heimilið ef þú ert utan hins hefðbundna ramma.

Að alast upp sem barn utan ramma skólakerfisins þekki ég vel en gerði mér ekki grein fyrir þeirri auknu hugrænu byrði á foreldra mína fyrr en ég kynntist því af eigin raun, þótt þeim verkefnum sé jafnara skipt í dag en var í þá daga er ég var að alast upp.

Margt hefur breyst og margt ekki

Að alast upp í Breiðholtinu var ævintýralegt og yndislegur tími. Að alast upp á heimili með báðum foreldrum, umvafinn ást og endalausri þolinmæði, og líða aldrei skort voru mín forréttindi. Forréttindi sem ég bý að í dag og er þakklátur fyrir. En það var ekki þannig hjá öllum og er ekki þannig hjá öllum í dag. Þó að jólin séu tími tilhlökkunar og samveru með fjölskyldu og vinum eru jólin fyrir mér tilefni til að líta inn á við. Við hjónin vinnum bæði vinnu sem tengir okkur meira við annars konar og sorglegri veruleika en fólk almennt tengir við. Það hjálpar okkur að jarðtengjast og finna sífellt nýjar leiðir til þess að bæta okkur í samskiptum og verkaskiptingu.

Þótt þetta sé hátíðargrein og hafi átt að vera á jákvæðu nótunum eru jólin mín eins og samfélagið okkar, svolítið súrsæt. Hátíð ljóss og friðar er líka áminning um stöðu okkar í samfélaginu og hjá sumum rauða spjaldið ef þeir standa illa félagslega og/eða fjárhagslega.

Þegar mamma vann á Barnaspítalanum var hún oft að passa langveik börn sem komu utan af landi í meðferðir við sínum langvinnu sjúkdómum. Í þá daga var ekki óalgengt að heilbrigðisstarfsmenn væru einu tengslin sem fólk utan af landi hafði í Reykjavík og því nærtækt að leita til þeirra í frítíma eftir pössun ef útréttinga var þörf. Og þetta þótti ekkert tiltökumál á mínu heimili. Sem barn kynntist ég mörgum langveikum börnum sem komu heim, stundum bara í kaffi með mömmu sinni og stundum hálfu dagana í pössun. Ég spáði svo sem ekki mikið í þessu fyrr en mörgum árum seinna. Það var misskipting í íslensku samfélagi þá en fólk hjálpaði hvort öðru og það voru flestir í sama baslinu.

Í dag virðist þetta miklu dýpra og við erum að fjarlægjast hvert annað, tölum minna saman og gefum minna fyrir stöðu annarra og hugsum meira um okkur sjálf. Því miður.

Deilum hugrænni byrði. Tökum kærleikann og gildin fram yfir glamúrinn. Strengjum eilíft heit um að gera samfélagið okkar betra og tökum ávallt upp hanskann fyrir okkar veikustu bræður og systur.

Gleðilega hátíð.

Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.