Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Almennar fréttir - 21.01.2021

Öldungaráð VR

Forystusveit Öldungadeildar VR, en þar eiga sæti allir 65 ára og eldri sem greitt hafa iðgjöld til VR á sinni starfsævi, fundaði nú í janúar og lagði línur um starfið framundan í baráttumálum eldri félagsmanna VR.

Í nýjum reglum um Öldungadeild VR sem stjórn VR samþykkti á síðasta ári kemur m.a. fram að forystusveitin sem ber titilinn Öldungaráð VR er skipað til bráðabirgða fram að aðalfundi VR í lok mars nk. Þá mun stjórn skipa þrjá en meðlimir í Öldungadeild VR munu kjósa um þrjá þeim til viðbótar eða sex alls. Formaður VR á einnig sæti í Öldungaráði.

Framundan er áframhaldandi áhersla á stuðning við baráttu Gráa hersins, baráttuhóps eldri borgara um lífeyrismál. VR hefur lagt málssókn Gráa hersins lið gegn Tryggingastofnun f.h. íslenska ríkisins vegna skerðinga á opinberum ellilífeyri í hlutfalli við réttindin sem fólk hefur áunnið sér í almennum lífeyrissjóðum. Það eru sjónarmið okkar að með því sé um að ræða ígildi eignaupptöku sem er brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar auk 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi eignarréttarins. Enda var því kerfi skyldulífeyrissparnaðar, sem komið var á fót með kjarasamningum á árinu 1969, ætlað að koma til viðbótar en ekki í stað almannatrygginga.

Mörg önnur mál er lúta að hagsmunum eldri félagsmanna verða svo einnig á dagskrá, s.s. húsnæðismál ofl. – við munum færa nánari fréttir af störfum og baráttumálum Öldungadeildar félagsins á næstu misserum.