Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
VR 1.jpg

Almennar fréttir - 30.12.2016

Samningur undirritaður um sameiningu VR og Verslunarmannafélags Suðurlands

Eins og við skýrðum frá í síðasta VR blaði er fyrirhuguð sameining VR og Verslunarmannafélags Suðurlands (VMS) en á aukaaðalfundi VMS þriðjudaginn 15. nóvember sl. samþykktu félagsmenn að gengið yrði til sameiningarviðræðna við VR og þegar samningur lægi fyrir verði hann afgreiddur í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna VMS.

Samninganefndir félaganna hafa nú gert með sér samkomulag um sameininguna sem undirritað var í dag 30. desember, og á meðfylgjandi mynd má sjá formenn félaganna, Ólafíu B. Rafnsdóttur formann VR og Guðmund Gils Einarsson formann VMS, takast í hendur að lokinni undirskrift samningsins. Samningurinn er undirritaður með fyrirvara um félagslega afgreiðslu hjá báðum félögunum.

Í samningnum kemur m.a. fram að sameining félaganna verði frá og með 1. febrúar 2017 og þá munu núverandi félagsmenn VMS öðlast full réttindi í VR. Við það mun félagsgjald þeirra lækka úr 1% í 0,7%. Félagsmenn VMS munu fá inneign í VR varasjóði m.v. iðgjöld þrjú ár aftur í tímann sem þeir geta notað til að greiða niður forvarnir, orlofsþjónustu, námskostnað o.fl.

Stofnuð verður Suðurlandsdeild VR með þriggja manna stjórn og áfram verður rekin öflug þjónustuskrifstofa á Selfossi. Formenn félaganna voru ánægðir að lokinni undirskrift samningsins í dag og sögðust þess fullviss að þetta væri gæfuspor fyrir verslunar- og skrifstofufólk á Suðurlandi og yrði um leið styrkur fyrir VR.