Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.
Vr Utsynismyndir 1

Almennar fréttir - 18.11.2021

Traust og efndir lykillinn að samstarfi á vinnumarkaði

Á Peningamálafundi Viðskiptaráðs, sem haldinn var að morgni 18. nóvember, gagnrýndi formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, harðlega ákvörðun seðlabankastjóra um að hækka stýrivexti og sagði ekki boðlegt að kenna verkalýðshreyfingunni um. Ytri þættir og fasteignamarkaðurinn skipti sköpum þegar kemur að verðbólguþróuninni og bankinn hafi bæði vanmetið áhrif erlendra þátta á innlenda verðlagsþróun og gripið of seint inn í atburðarrásina á húsnæðismarkaði. Ragnar Þór benti á að þegar rætt er um upptöku norrænna vinnubragða við kjarasamningagerð þurfi að koma til traust allra sem að málinu koma og efna þurfi loforð. Þar hafi stjórnvöld brugðist.

Í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, sem var aðalræðumaður á fundinum, kom fram að bankinn teldi vinnumarkaðinn helsta áhættuþáttinn þegar kemur að verðstöðugleika og sagði mikilvægt að það ríki skilningur allra aðila á stöðunni. Lítil áhersla var lögð á mikilvægi ytri þátta í máli hans en Ragnar Þór benti á að áhrif þeirra væru hvað mikilvægust þegar kemur að verðbólguþrýstingi í dag. Framundan væru holskeflur hækkana. Það væri óboðlegur málflutningur að skella skuldinni á verkalýðshreyfinguna og þá kjarasamninga sem voru gerðir og segja þá ástæðu þess að verðbólga hafi farið úr böndunum. Allar tölur sýni að fasteignamarkaðurinn keyrði upp verðbólguna og að seðlabankinn hafi gripið alltof seint inn í með aðgerðir.

Í umræðu um næstu kjarasamninga á vinnumarkaði var mörgum tíðrætt um norræna vinnumarkaðsmódelið en Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, benti þó á í pallborðsumræðum að það væri ekki töfralausn. Ragnar Þór sagði að slíkt módel byggi fyrst og fremst á trausti milli aðila sem ekki væri til staðar á íslenskum vinnumarkaði. Lífskjarasamningarnir hafi skilað gríðarlega miklum ávinningi þegar kemur að samningum milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda en það stæði ekki steinn yfir steini þegar kæmi að efndum stjórnvalda. Innistæða hafi verið fyrir samningnum og sé enn, mörg fyrirtæki gangi vel og kaupmáttur hafi verið að meðaltali um 4% síðasta áratug sem sé til marks um að það módel sem kjarasamningaviðræður byggi á hér skili árangri. Þríhliða samtal væri enn í gangi en það gangi illa þegar einn aðili er ekki traustsins verður.