Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr1946safn

Almennar fréttir - 27.01.2021

VR 130 ára í dag

Þann 27. janúar árið 1891 var Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, VR, stofnað á fundi í veitingahúsinu Hermes við Lækjargötu og fagnar því félagið 130 ára afmæli í dag.

Á þessum merku tímamótum býður VR upp á hátíðardagskrá sem sýnd verður á vr.is og á visir.is kl. 19:30 í kvöld. Sigmar Guðmundsson fær til sín fyrrum formenn VR í gamla Lækjargötuhúsið þar sem félagið var stofnað á sínum tíma, en húsið stendur nú á Árbæjarsafni. Þá flytja Vandræðaskáld lag sem þau sömdu um VR og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, flytur ávarp.

Hlekkur á viðburð

Í gamla VR blaðinu, sem þá hét „Smári“ var ort um stofnfund VR á þessum nótum:

Ljós í gluggum löngum skein í Lækjargötu,
inni í hlýju „Hermes“ ræddi
hópur manns og kleinur snæddi.

Hér vil ég koma félag’ á fót að fjörga og glæða,
livet i denne lille bærinn,
sem ligger saa pænt við Atlandssærinn.


Og VR tók sannarlega að sér að fjörga og glæða því félagið varð strax mjög fyrirferðarmikill félagsskapur í lífi Reykvíkinga. Dansleikir og jólatrésskemmtanir félagsins voru mjög kærkomin tilbreyting um aldamótin 1900 því skemmtanalíf var þá mjög fábreytt. Félagið stóð einnig fyrir vinsælum útiskemmtunum og bar þar hæst skemmtun á frídegi verslunarmanna, en tildrög hans voru þau að félagsmenn veltu því fyrir sér árið 1894 að fara í skemmtiferð með gufubátnum Elínu um sumarið. Það tókst ekki en í staðinn var ákveðið að gefa verslunarmönnum frí fimmtudaginn 13. september sama ár og halda hátíð þar sem gengið yrði undir fánum og söng frá Lækjartorgi og að Ártúnum. Þessi frídagur og hátíðarhöld festust svo í sessi eftir það.

Hinir 33 stofnendur VR voru reyndar allir karlmenn og ekki gert ráð fyrir konum í lögum félagsins. Níu árum eftir stofnun félagsins kom til sögunnar frú Laura Hansen, sem rak verslun í Austurstræti með eiginmanni sínum en hún sætti sig ekki við að þurfa að standa utan félags og sótti hún því um inngöngu haustið 1900, enda þótt slíkt væri í raun ekki heimilt samkvæmt lögum félagsins. Á félagsfundi þann 3. nóvember árið 1900 var svo umsókn hennar samþykkt eftir miklar umræður og verður þetta að teljast til stærri afreka í sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu því með þessu varð að breyta lögum VR og opna það fyrir konum og var það gert á aðalfundi árið eftir.
Hvernig VR breyttist smátt og smátt í hagsmunasamtök launafólks undir miðbik 20. aldar er önnur saga. Grunnurinn að því var lagður er 70 félagar úr Verzlunarmannafélaginu Merkúr (1913–1934) gengu til liðs við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, en Merkúr var fyrst og fremst stéttarfélag í nútíma skilningi. Það var svo loks þann 28. febrúar árið 1955 að VR varð að fullu stéttarfélag launþega.