Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
C3A4284

Almennar fréttir - 15.03.2022

VR blaðið er komið út! 1. tbl. 2022

Fyrsta tölublað VR blaðsins árið 2022 er komið út og er því dreift til félagsfólks í pósti. Í þessu fyrsta tölublaði höldum við áfram umfjöllunum um þriðju vaktina en Valgerður Bjarnadóttir og Andrea Hjálmsdóttir eiga grein í blaðinu sem ber heitið „Þriðja vaktin, mæður og kórónaveirufaraldurinn.“ Þá er einnig að finna viðtal við þær Ölmu Dóru Ríkarðsdóttur og Sigurlaugu Guðrúnu Jóhannsdóttur en þær ætla að gefa út smáforrit sem aðstoðar fólk við að skipuleggja heimilisstörfin, en hugmyndin að forritinu vann Gulleggið árið 2020.

Birna Dröfn Birgisdóttir skrifar grein í blaðið sem ber heitið „Hægjum á í auknum hraða fyrir meiri sköpunargleði“ en Birna Dröfn hefur rannsakað hvernig efla megi sköpunargleði á meðal starfsfólks og hefur þjálfað hundruðir einstaklinga og fyrirtæki í sköpunargleði.

Ert þú að huga að starfsþróun? VR býður félagsfólki sínu upp á starfsþróunarráðgjöf hjá Mími símenntun en VR blaðið tók náms- og starfsráðgjafa hjá Mími tali og ræddi einnig við VR félaga sem hefur nýtt sér ráðgjöfina.
Í blaðinu er að finna hvatningu til félagsfólks til að taka þátt í könnun VR á Fyrirtæki ársins en könnunin stendur yfir til 21. mars og geta heppnir svarendur unnið glæsilega vinninga, meðal annars rafmagnshlaupahjól og Iphone 13.
Í blaðinu má lesa um það hvernig tveir VR félagar nýta styttingu vinnuvikunnar, en styttingin tók gildi 1. janúar 2020.

Hvernig verða kjarasamningar til? Þú kemst að því með því að lesa blaðið! Sjá nánar hér.
Leiðari formanns, krossgátan og viðtal við trúnaðarmann VR eru að sjálfsögðu á sínum stað í blaðinu auk ýmiss annars fróðleiks.

Útgáfa VR blaðsins verður með breyttu sniði í ár en í stað fjögurra tölublaða verða gefin út tvö tölublöð. Félagið vill með þessu auka áherslu á upplýsingatengt efni á vef sínum vr.is og öðrum miðlum félagsins.

  • Viltu frekar fá VR blaðið rafrænt? Skráðu þig fyrir rafrænu eintaki á Mínum síðum.