Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Jolablad 2020 Forsida 1

Almennar fréttir - 07.12.2020

VR blaðið er komið út! 4. tbl 2020

Jólablað VR blaðsins er komið út og er því dreift til félagsmanna með pósti. Í þessu síðasta tölublaði ársins er fjallað um atvinnuráðgjöf sem VR býður félagsmönnum sínum þeim að kostnaðarlausu. Auk ráðgjafar mun VR fara af stað með nýjung, svokölluð „Hádegisráð VR“ sem verða stuttir rafrænir fyrirlestrar sem ætlaðir eru að koma atvinnuleitendum að góðum notum.

Magnús L. Sveinsson, fyrrum formaður VR, er í viðtali í VR blaðinu, en hann hefur gefið út bók „Af moldargólfi í ólgusjó verkalýðsmála“ þar sem félagið kemur mikið við sögu, enda starfaði Magnús hjá VR í 42 ár.

Þá er einnig viðtal í blaðinu við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, um það helsta sem er á döfinni hjá félaginu og er Ragnar Þór meðal annars inntur eftir því hvort hann ætli að gefa kost á sér í formannskjöri félagsins á næsta ári.

Um fimm þúsund manns hafa farið í gegnum Stafræna hæfnihjólið á því ári sem er liðið frá því að það var opnað. Hæfnihjólið er sjálfsmatspróf á vef VR þar sem þátttakendur meta sjálfa sig út frá skilgreindum hæfniþáttum og gefa niðurstöðurnar mynd af því á hvaða sviðum þeir standa sig vel og hvar þeir megi bæta sig. Við hvetjum að sjálfsögðu alla félagsmenn til að kynna sér málið nánar á vef VR.

Samkaup hóf í haust að bjóða starfsfólki sínu ókeypis velferðarþjónustu þar sem meðal annars er boðið upp á ókeypis sálfræðiþjónustu og fjármálaráðgjöf. Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa segir nánar frá þjónustunni í blaðinu.

Á þessum árstíma er mikilvægt að huga að réttindum sínum og skyldum á vinnumarkaðnum enda jólaverslunin í algleymingi.

Við minnum félagsmenn á að þeir geta afþakkað blaðið í prentaðri útgáfu og skráð sig fyrir rafrænu eintaki á Mínum síðum.

Smelltu hér til að lesa blaðið.