Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Halldór Grönvold Sv Hv 2008

Almennar fréttir - 07.12.2020

Halldór Grönvold - minning

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, lést þann 18. nóvember síðastliðinn aðeins 66 ára að aldri. Halldór hóf störf hjá ASÍ árið 1993 og vann alla tíð ötullega að réttindum launafólks.

Halldór beitti sér sérstaklega að fræðslumálum og þá einkum starfsmenntamálum þar sem við hjá VR áttum í nánum og ánægjulegum samskiptum við hann og nutum þar áhuga hans og krafta í þeim efnum. Halldór var einnig einarður baráttumaður fyrir aðgerðum til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði s.s. er varðar kennitöluflakk. Stjórnarmönnum og starfsmönnum VR leiðbeindi Halldór einnig í ótal ánægjulegum ferðum til kynningar á starfsemi Evrópskrar verkalýðshreyfingar í ferðum til Brussel þar sem hann var óþrjótandi upplýsingabrunnur um öll þau mál á Evrópuvettvangi. Þá nutum við hjá VR krafta hans sem formanns kjörstjórnar VR um árabil og einnig í málum er varða atvinnulausa félagsmenn okkar.

VR stendur í þakkarskuld við Halldór vegna alls þessa merka og mikilvæga starfs sem hann innti af hendi hvort sem var fyrir VR sérstaklega eða hreyfinguna í heild sinni.

Starfsfólk VR sendir aðstandendum Halldórs og samstarfsfólki hans hjá ASÍ innilegar samúðarkveðjur.