Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Almennar fréttir - 05.02.2021

VR kaupir fjögur ný orlofshús í Hálöndum Akureyrar

Stjórn VR samþykkti á hátíðarfundi sínum í tilefni 130 ára afmælis VR þann 27. janúar sl. að kaupa fjögur ný orlofshús á hinu vinsæla svæði Hálöndum við Akureyri. VR á fyrir fjögur heilsárshús á svæðinu sem eru staðsett við Hlíðarfjallsveg, u.þ.b. miðja vegu milli skíðaaðstöðunnar og bæjarins. Húsin eru 108 fermetrar og í þeim eru þrjú svefnberbergi, tvö baðherbergi, stofa og eldhús. Heitur pottur er í hverju húsi.
Orlofshús VR í Hálöndum hafa verið mjög vinsæl og haft eina bestu nýtingu orlofshúsa félagsins.

Í Hálöndum eru þegar risin 52 orlofshús á vegum SS Byggis ehf. Félagið er að hefja framkvæmdir í þriðja áfanga í Hálöndum og eru nú þegar komin 15 hús í byggingu sem verða tekin í notkun fyrri hluta ársins 2022 og standa VR fjögur hús til boða í þeim hluta. Samtals er um að ræða fjárfestingu fyrir um 200 milljónir króna en þá er meðtalið allt sem þarf til að standsetja hús fyrir útleigu svo sem allur búnaður, tæki og húsgögn.

Á Akureyri á VR fyrir 7 íbúðir við Furulund, eina íbúð við Dalsgerði og þrjár íbúðir í Skipagötu.