Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
stressless-heilsukorn.jpg

Greinar - 28.08.2018

Ekki láta streituna ráða för

Nokkur heilræði fyrir komandi vetur

Haustið er handan við hornið, flestir vinnustaðir eru að endurheimta starfsfólkið eftir sumarfrí og skólar, leikskólar og frístundastarf eru að hefjast af fullum krafti. Margir þekkja að það getur verið heilmikil áskorun að púsla saman öllu því sem þarf að gera í dagsins önn. Boltarnir eru oft ansi margir, bæði í einkalífi og starfi og margir þurfa að hafa sig alla við til að halda öllu gangandi. Þegar álag verður of mikið, sérstaklega ef við upplifum að við erum farin að „ströggla“, getur það haft neikvæð áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega. Við förum að finna fyrir streitu.

Þegar við tölum um streitu þá erum við í raun að vísa í streituviðbragðið sjálft (lífeðlisfræðilegt varnarviðbragð líkamans), streituvaldana (ytri og innri) og streitutengda vanheilsu, sem eru afleiðingarnar og geta birst bæði í líkamlegum einkennum, jafnt sem andlegum. Í stuttu máli sagt geta afleiðingar streitunnar birst bæði í hugsun og hegðun. Mikilvægt er að hafa í huga að streita er í eðli sínu jákvæð. Hún bætir frammistöðu okkar og skerpir athyglina. Hún gerir okkur líka kleift að takast á við álag af ýmsum toga sem er vissulega mjög hjálplegt. En yfirálag og langvinn streita getur hins vegar haft skaðlegt áhrif á heilsu okkar, andlega sem og líkamlega því hún slævir ónæmiskerfið og veikir varnir líkamans. Því er mikilvægt að vera vel vakandi og hlúa vel að sér. Hér að neðan eru nokkur ráð sem ágætt er að taka mið af nú í haustbyrjun, sem geta dregið úr líkum á því að streitan taki öll völd og skerði heilsu okkar og lífsgæði.

1) Vaknaðu til vitundar um sjálfan þig
Mikilvægt er að þekkja sjálfan sig, vakna til vitundar um það sem veldur manni streitu og þekkja streitueinkennin. Þannig getum við undirbúið okkur og aukið líkurnar á að við bregðumst rétt við. Kortlagning streituvalda og einkenna er mjög mikilvæg.

2) Gerðu áætlun
Að hafa góða yfirsýn yfir vikuna jafnvel mánuðinn getur verið afar gagnlegt. Settu inn í stundatöflu eða dagbók allt sem þú veist að er framundan hjá þér eins og fundir, afmælisboð, læknisheimsóknir, próf eða skilafrestir ef það á við. Margir upplifa til dæmis heilmikla streitu í tengslum við matarinnkaup og það gæti verið gott að vera búinn að útbúa matseðil fyrir vikuna, að minnsta kosti fyrir virku dagana.

3) Einfaldaðu lífið eins og þú getur
Við erum svo dugleg að flækja lífið að óþörfu og oftar en ekki er það vegna þess að við erum illa skipulögð og skortir yfirsýn. Hvar getur þú einfaldað lífið þitt? Með því að losna við litlu flækjurnar eigum við meiri orku á tankinum fyrir stærri álagsvalda.

4) Settu tóninn fyrir daginn
Margir kannast við það að vera á síðustu stundu með allt, jafnvel þó þeir viti vel að það getur verið mjög óþægilegt. Það gæti verið hjálplegt fyrir marga að vakna örlítið fyrr á morgnana og gefa sér þannig aðeins rýmri tíma í morgunverkin og jafnvel að njóta þeirra, frekar en að hlaupa úr einu í annað og rjúka út um dyrnar með öndina í hálsinum.

5) Forgangsraðaðu og gerðu raunhæfar kröfur
Þegar álagið er mikið er mikilvægt að forgangsraða. Sumt skiptir meira máli en annað. Ef um tímabundið ástand er að ræða er gott að minna sig á það. Við þurfum líka að horfast í augu við að ekki er raunhæft að krefjast þess af okkur sjálfum að við sinnum öllum verkefnum jafn vel á álagstímabilum og þegar minna er að gera. Veltu fyrir þér hvað má bíða akkúrat núna. Má þvottahrúgan bíða eða má göngutúrinn bíða? Hver og einn þarf að svara því fyrir sig.

6) Hlúðu að þér og vertu í núinu
Það er mjög mikilvægt að hlúa að sér og sá tími sem fer í það þarf ekki að vera langur. Vissulega væri kostur ef við gætum passað vel uppá mataræðið, svefninn, hreyft okkur reglulega og gert ánægjulega hluti en stundum er það bara dálítið flókið. Við erum mörg hver gjörn á að gera miklar kröfur til okkar sjálfra og þegar við náum ekki að uppfylla þær út frá þeim markmiðum sem við höfum sett þá líður okkur eins og okkur hafi mistekist. Margir kannast við að byrja haustið með háleit markmið um að taka einmitt á öllum grunnþáttum heilsunnar. Auðvitað er mikilvægt að setja sér markmið en þau þurfa líka að vera raunhæf. Ef ég kemst ekki líkamsræktina í dag sökum álags eða anna, þá gæti ég mögulega gert eitthvað annað í staðinn, farið í stuttan göngutúr, eða tekið stigana í staðinn fyrir lyftuna, lagt bílnum aðeins lengra frá en venjulega.

Allt skiptir máli og bara það að gefa sér 5 mínútur hér og þar í dagsins önn skiptir líka máli. Leyfðu þér að njóta kaffibollans, vera örlítið lengur í sturtunni, staldra við og horfa uppí himininn og bara vera og skynja í eitt augnablik, vera heils hugar til staðar í samtali. Þetta þarf ekki að taka mikinn tíma frá þér en getur skipt sköpum. Notaðu nokkrar mínútur hér og þar til að stinga þér í samband og hlaða á orkutankinn.

7) Innri röddin
Það eru allar líkur á að þú sért að gera þitt allra besta og minntu þig á það. Þegar streitukerfi líkamans virkjast hefur það iðulega áhrif á hugsanir okkar með neikvæðum hætti sem aftur virkjar streitukerfið þannig að vítahringur skapast. Við verðum líklegri til að fara beita okkur hörku og tala okkur niður. „Af hverju þarf ég alltaf að vera svona sein/seinn“, „ég er alveg ómöguleg/ur“ og svo framvegis. Hugsanir sem þessar eru ekki hjálplegar og því er mikilvægt er að vakna til vitundar um þessa innri rödd okkar. Sýndu þér skilning og umburðarlyndi í stað þess að brjóta þig niður.

Sigrún Ása Þórðardóttir,
Sálfræðingur í Heilsuborg og fagstjóri geðræktar og hugarhreysti