Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Ragnheiðuragnars Vefur

Greinar - 26.09.2019

Stytting vinnuvikunnar - ávinningur fyrir alla

Ragnheiður Agnarsdóttir, eigandi Heilsufélagsins skrifar:

Í Lífskjarasamningnum, sem samþykktur var af félagsmönnum VR þann 15. apríl 2019, var samið um styttingu vinnuvikunnar. Um er að ræða samning milli launafólks og atvinnurekenda um útfærslu sem hentar hverjum vinnustað sem er athyglisverð tilraun sem gæti reynst, ef rétt er haldið á spilunum, mikið framfaraskref fyrir íslenskan vinnumarkað.

Langur vinnudagur og lítil framleiðni

Það hefur lengi legið fyrir að vinnuvikan á Íslandi er lengri og framleiðni á vinnustund minni en í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Þannig er meðalfjöldi vinnustunda um 39 klukkustundir á viku á Íslandi en um 34 stundir í Noregi. Framleiðni á vinnustund á Íslandi mælist um þriðjungi lægri á Íslandi en í Noregi þar sem hún er einna hæst samkvæmt mælingum OECD.

Margir hafa áhyggjur af því að stytting vinnuvikunnar á Íslandi muni leiða til þess að framleiðni dragist saman enda má vera ljóst að ef við gerum nákvæmlega það sama á hverri vinnustund þá munum við bera minna úr býtum en áður. Það getur því haft neikvæð áhrif á vinnumarkað, efnahag og samkeppnishæfni Íslands ef ekki tekst vel til við útfærslu á styttingu vinnuvikunnar á Íslandi.

En hvað er þá til ráða? Reynsla Heilsufélagsins, sem á síðustu misserum hefur unnið að útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, staðfestir að fjölmörg tækifæri geta falist í verkefnum sem miða að því að stytta vinnutíma starfsmanna. Sé markvisst unnið að kostnaðargreiningum, mati á þjónustuþörf, umbótum á starfsumhverfi og nýtingu tæknilausna með það að markmiði að auka hagkvæmni má verulega bæta framleiðni og lífskjör á íslenskum vinnumarkaði. Tölur OECD frá þessu ári, sem vitnað hefur verið til að undanförnu, sýna að framleiðni hefur aukist hratt á Íslandi samfara styttingu ársvinnutíma. Það sýnir okkur að stytting vinnutíma þarf alls ekki að þýða að framleiðni minnki.

Það er full ástæða til nokkurrar bjartsýni um að vel takist til við innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar. Í netkönnun, sem Heilsufélagið gerði sumarið 2019 og svarað var af 537 manns, komu fram ákveðnar vísbendingar um að launafólk á Íslandi hafi uppi mjög skynsamlegar og hóflegar hugmyndir þegar kemur að styttingu vinnutíma. Könnun Heilsufélagsins leiddi til að mynda í ljós að 93% þeirra sem svöruðu könnuninni höfðu áhuga á að stytta vinnutíma sinn og að 87% töldu frekar eða mjög líklegt að þau gætu afkastað jafnmiklu og þau gera í dag ef vinnutími yrði styttur um 30 mínútur á þeirra vinnustað. Flestir eða 37% höfðu áhuga á að stytta vinnutíma sinn um 30-60 mínútur á dag en tæplega fjórðungur myndi kjósa að safna styttingunni upp í frídaga fremur en að stytta hvern dag. Vísbendingar eru um að þeir sem yngri eru séu áhugasamari um að stytta vinnudaginn fremur en að fjölga frídögum.

Þú getur lagt þitt af mörkum

Útfærsla á styttingu vinnutíma er ekki verkefni sem leyst verður á borði framkvæmdastjóra eða stjórnenda einna. Til þess að vel takist til þurfa allir að koma að borðinu. Hér er um að ræða frábært tækifæri fyrir starfsmenn til þess að taka frumkvæði og benda á þau tækifæri sem eru til hagræðingar í starfsumhverfinu í stað þess að bíða eftir að stjórnandinn leggi lausnina á borðið. Heilsufélagið hefur í sínum verkefnum unnið eftir vel skilgreindum verkefnisramma í 6 skrefum sem skilað hefur góðum árangri.

Stytting vinnutíma er jafnréttismál

Ekki eru liðin nema um 40 ár frá því að konur hófu af fullum krafti atvinnuþátttöku á Íslandi en í dag er atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi um 72% og mælist hlutfallslega ein sú mesta í heimi samkvæmt talnaefni frá Alþjóðabankanum. Til samanburðar er atvinnuþátttaka kvenna í Noregi um 60%. Lög um 40 stunda vinnuviku voru sett 1971 en þá voru flest heimili á Íslandi með heimavinnandi húsmæður. Eins og áður sagði er meðalvinnutími á viku nú um 39 stundir og því má segja að núverandi umgjörð á vinnumarkaði geri ráð fyrir að enn sé einn aðili sem sjái um heimilið. Langur vinnudagur gerir því í raun ráð fyrir útvistun á umönnun og menntun barnanna okkar og leiða má líkur að því að ein af birtingamyndum langs vinnudags á Íslandi sé hátt brottfall af vinnumarkaði vegna álagstengdra sjúkdóma eins og stoðkerfis- og geðvandamála – en þar eru konur í verulega meiri áhættu en karlar. Stytting vinnutíma er líka kjörið tækifæri til þess að Íslendingar segi skilið við Evrópumet sitt í lengd viðveru barna í leikskólum sem ásamt mikilli lyfjanotkun íslenskra barna er „met“ sem við viljum ekki eiga.

Betra samfélag fyrir alla

Með styttingu vinnuvikunnar á Íslandi erum við vonandi að hefja ferðalag í þá átt að gera íslenskt samfélag að betri stað fyrir alla. Vinnustaðir verði skilvirkari og um leið fjölskylduvænni þ.e. að þeir geri báðum foreldrum kleift að sinna vinnu samhliða því að njóta samveru með vinum og fjölskyldu – án þess að það sé gert á handahlaupum með tilheyrandi álagi fyrir alla.

Við erum vonandi einnig að hefja ferðalag í þá átt að stytta vinnutíma íslenskra barna og aðlaga samfélagið betur að þeirra þörfum. Rannsóknir hafa margsinnis staðfest að samvera barna og foreldra er lykilinn að velferð fjölskyldunnar. Ekki væri svo verra að útfærslur á styttingu vinnutíma á Íslandi muni með tímanum leiða af sér mjög eftirsóknarverðar og mikilvægar aukaverkanir eins og dreifðari umferð með tilheyrandi tímasparnaði og þar með bættum lífsgæðum fyrir alla.

Hvað ætlar þú að gera við tímann?

Tíminn er gull samtímans. Það virðist aldrei vera nóg af honum og hann þýtur áfram oft á slíkum ógnarhraða að okkur finnst við varla ná að staldra við. Það er mikilvægt þegar úfærslan á styttingu vinnutíma liggur fyrir á þínum vinnustað að þú ákveðir strax hvernig þú ætlir að ráðstafa þeim aukna frítíma sem styttingin skilar þér. Mun hann fara í að rúlla í gegnum samfélagsmiðla (mesta tíma- og athyglisþjóf nútímafólks) eða fer hann í að gera hluti sem skila þér auknum lífsgæðum og hamingju eins og samveru með fjölskyldu og vinum, hreyfingu eða bara í að gera ekki neitt – bara vera til og njóta augnabliksins?

6 skref að vel heppnaðri innleiðingu á styttingu vinnutíma

  1. Markmið. Á stytting að viðhalda eða auka þjónustugæði? Auka tekjur, minnka álag, minnka starfsmannaveltu, fækka fjarvistum, minnka óþarfa skrepp? Tryggja þarf við markmiðasetningu að allir hagsmunaaðilar sjái virðið í verkefninu.
  2. Lykilmælikvarðar. Stjórnendur og starfsmenn velja í sameiningu lykilmælikvarða verkefnisins. Sem dæmi um mælikvarða má nefna ánægju viðskiptavina, fjarvistir, yfirvinnustundir, upplifun starfsmanna á álagi, launakostnað, tekjur og fjölda afgreiðslna.
  3. Vinnustofur. Unnið er að því í vinnustofum að finna leiðir til þess að skilgreina og mæta þjónustuþörf og hanna vaktaplön sem mæta kröfum viðskiptavina um þjónustu – hvort sem um innri eða ytri viðskiptavini er að ræða. 
  4. Æfingatímabil. Prófaðar eru nokkrar útfærslur af vaktaplönum í 8-12 vikur samhliða því sem fylgst er með þróun lykilmælikvarða.
  5. Kosningar. Hver þjónustueining kýs um sitt fyrirkomulag á vinnutíma að loknu æfingatímabili.
  6. Regluleg endurskoðun og umbætur. Öll verkefni, hvort sem er í starfi eða einkalífi, þarfnast reglulegrar endurskoðunar. Heimurinn og lífið allt er á fleygiferð og því er nauðsynlegt að halda þeirri umbótahugsun sem verkefnið skilar lifandi.