Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
IMG_0436 - Copy.jpg

VR blaðið - 28.03.2018

Diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun

Diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er tveggja ára dreifnám með vinnu og eru grunnáfangar þess birgða-, vöru og rekstrarstjórnun, kaupmennska og verslunarréttur sem eru sérstaklega hannaðir fyrir nám í verslunarstjórnun. Einnig taka nemendur áfanga í rekstrarhagfræði, stjórnun, mannauðsstjórnun, þjónustustjórnun og reikningshaldi ásamt einum valáfanga sem nú þegar er kenndur til BS gráðu í viðskiptafræðum við Háskólann á Bifröst og í Háskólanum í Reykjavík. Hægt er að sitja áfangana þar sem námsmanni hentar, hvort sem er í staðnámi í HR eð í fjarnámi frá Bifröst. Námið byggir á ítarlegri greiningu á starfi verslunarstjóra og veitir góðan grunn í viðskipta- og verslunarrekstri.

Hluti af náminu verður í formi vinnustofa þar sem stjórnendur úr atvinnulífinu greina frá því helsta sem er að gerast í starfsgreininni. Sérstakur náms- og starfsráðgjafi vinnur með nemendahópnum og veitir ráðgjöf. Námið hófst 16. febrúar með vinnuhelgi á Bifröst. Alls eru 20 nemendur skráðir í námið.

Fyrsta vinnuhelgin á Bifröst

Fyrsta vinnuhelgi nemenda í Diplómanámi í viðskiptafræði og verslunarstjórnun fór fram 16. og 17. febrúar síðastliðinn. Vinnuhelgin markar upphaf fyrsta áfangans í náminu sem er Birgða-, vöru- og rekstrarstjórnun. Áfanginn er einn af þremur sérsniðnum áföngum námsins og eru þeir allir þrír kenndir í fjarnámi. Næsti sérsniðni áfangi verður í umsjón Háskólans í Reykjavík. Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, setti námið og hvatti nýja námsmenn til dáða. Margir í hóp nemenda eru reyndir verslunarmenn og voru þeir hvattir til að taka virkan þátt í náminu og deila reynslu sinni. Þá bauð Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, nemendur velkomna. Að loknum ávörpum fóru nemendur í yfirferð hjá náms- og starfsráðgjafa skólans og fengu svo kennslu á rafræna kennslukerfið. Seinnihluti vinnuhelgarinnar var helgaður kennslu í upplýsingatækni sem Jón Freyr Jónsson aðjúnkt sá um. 

Grein birtist í 1. tölublaði VR blaðsins 2018