Vr Utsynismyndir 6

VR blaðið - 13.04.2023

Seigla og streita- músíkalskt par!

Í starfi mínu sem slysa- og bráðalæknir gat ég ekki annað en fengið áhuga á streitu og seiglu. Hvað veldur því að fólk þolir misvel álag og erfiðleika lífsins? Fólk kom ekki einungis á spítalann vegna slysa og veikinda, heldur einnig vegna einkenna sem mátti rekja til viðvarandi álags og streitu og reyndar líka óhappa sem urðu beinlínis vegna streitu.

Í dag er rætt um það að 60-70% fjarvista frá vinnu séu vegna álags- og streitutengdra einkenna. Því er til mikils að vinna að fræða fólk um leiðir til þess efla seiglu og nýta streituna til góðs. Mér þykir vænt um streitu og þykir leiðinlegt að hún hafi verið gerð að „vonda kallinum“ í okkar menningarheimi. Of lítið álag verður til þess að okkur fer að leiðast en of mikið fer illa með okkur. Hæfileg eða heilbrigð streita hámarkar getu okkur og eflir heilsu.

Streitan er ekki vandamálið heldur vaxandi áreiti og álag í samfélaginu

Það er nefnilega þannig að streitukerfi líkamans er meiriháttar viðbragðskerfi sem hjálpar okkur að takast á við breytingar, áskoranir og erfiðleika. Margt getur ræst streitukerfið, þar mætti nefna vitrænar áskoranir, hiti/kuldi eða hreyfing. Hins vegar snýst þetta allt um jafnvægi. Það þarf að lyfta upp mótvægiskerfi streitunnar sem heitir sefkerfið en ég kalla það: róandi - gróandi eða nærandi - græðandi kerfið. Í því kerfi býr endurheimtin sem eflir líka seiglu okkar.

Endurheimt kom inn í umræðuna varðandi afreksíþróttafólk. Þegar ekki var einblínt á álagsæfingar til þess að ná árangri heldur líka endurheimt eða hvíld þá skilaði íþróttafólk betri árangri í sinni grein. Endurheimt bætir reyndar heilsuna líka en í þessu vestræna umhverfi er oft frekar litið til árangurs en heilsu. Þetta gildir að sjálfsögðu um okkur öll.
Það er löngu komið í ljós hvað endurheimt skiptir miklu máli. Stór fyrirtæki á borð við Amazon og Google hafa nýtt sér og athuganir leitt í ljós, að betri árangur fæst á vinnustöðum þegar starfsfólk fær tækifæri til hvíldar og endurheimtar og hvað þá þegar tengsl við náttúruna bætast við. Þessi stórfyrirtæki sjá að með því að gefa rými og ró eykst flæði sköpunargleðinnar og skerpist á rökrænni hugsun og framleiðni. Með þessu minnka líka fjarvistir vegna álagstengdra einkenna.

Streitukerfið keyrist upp við álag og líkaminn gerir okkur klár til að takast á við áskoranir, óháð því hver ógnin er. Hjartað slær hraðar, blóðþrýstingurinn hækkar og það herðir á öndun. Blóð með orku og súrefni flæðir til þeirra líffæra líkamans sem þurfa á því að halda eins og hjarta, heila og vöðva, sem spennast. Á meðan eyðum við ekki orku í meltinguna og slökkvum á henni. Þannig er líkaminn tilbúinn til þess að takast á við ógnir og erfiði.

Við búum við allt öðruvísi ógnir í dag en þegar þessi kerfi voru að þróast í okkur. Streitukerfið er svo frábært að hjálpa okkur þegar við þurfum á því að halda en því var aldrei ætlað að vera nær alltaf í gangi! Þó að mikið liggi á vitum við vel að það er ekkert tígrisdýr að fara að éta okkur, heldur sitjum við kannski í góðum stól við tölvuna en erum með áhyggjur sem keyra upp streitukerfið, með þeim einkennum sem því fylgir m.a. blóðfylltum spenntum vöðvum.

Líkami okkar er hannaður til að hreyfa sig. En þegar álagið er mikið og ekki næg endurheimt þá hættir fólki til að hætta að hreyfa sig og þá er engin útrás fyrir alla þessa spennu. Þá getur fólk setið uppi með yfirspenntan líkama sem er líklegur til að næla sér í stoðkerfisvandamál, aukna hættu á hækkuðum blóðþrýsting, alls kyns meltingarvandamálum og jafnvel óttatilfinningu sem getur birst sem pirringur og kvíði.
Líkaminn þarf á endurheimt að halda. Þar fær hann möguleika á að melta fæðuna, gera við og byggja okkur upp. Ef við gefum endurheimt pláss blómstrar líka ónæmiskerfið og hugurinn nýtur sín í flæði með sköpun, rökrænni hugsun og betri samskiptum. Endurheimtin og það sem henni fylgir er okkur lífsnauðsynleg og eflir mennskuna.

Flestir hafa séð dýralífsþætti þar sem ljónin leika sér dögum saman, flatmaga í sólinni í samfélagi við aðra. Svo hlaupa þau af stað á ógnarhraða og veiða sér til matar en koma svo aftur í rólegheit, sleikja sárin og slá til veislu. Þau virðast heldur betur kunna að njóta og nýta endurheimtina.

Í lokin verð ég að minna á:

Eitt af viðbrögðum okkar við álagi er tengsl og traust. Þegar lífið erfitt og við styðjum hvert annað þá m.a. losnar hormónið oxytocin sem eykur kærleika og traust, bæði hjá þeim sem leitar aðstoðar og hjá þeim sem veitir hana. Því til viðbótar eru vísbendingar um að oxytocin bæti gróanda og hjálpi líkamanum að jafna sig í streitu. Þannig að þegar við styðjum hvert annað, þá er það ekki einungis þannig að það létti undir að bera byrgðarnar saman, heldur bætir það líðan og líkamlega heilsu.
Þetta eru nokkrir punktar frá námskeiðinu sem ég var með hjá VR sl. haust. Álag hefur nefnilega áhrif á skynjun og samskipti og það eru ýmsar leiðir til þess að bæta þau.

Mér finnst það mjög fallegt að líkaminn hafi þróað lífeðlisfræðilegt kerfi sem hjálpar okkur til þess að styðja aðra þegar erfiðleikar steðja að. Við erum nefnilega svo miklu betri saman en í sundur.

Kristín Sigurðardóttir,
slysa- og bráðalæknir 

Hæfniþættir framtíðarinnar

Á nokkurra ára fresti gefur The World Economic Forum, eða Alþjóðaefnahagsráðið, frá sér skýrslu sem kallast „The Future of Jobs Report”. Í þessum skýrslum kortleggur ráðið framtíð starfa og birtir þá hæfniþætti sem munu teljast mikilvægir fyrir störf framtíðarinnar, tækninýjungar og innleiðingu þeirra í alþjóðasamfélaginu út frá þeim atburðum eða breytingum sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina. Ráðið hefur gefið út tíu mikilvægustu hæfniþættina fyrir árið 2025. Meðal þessara hæfniþátta er Seigla, streituþol og sveigjanleiki sem Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir fjallaði um hér í grein sinni. Smelltu hér til að sjá yfirlit yfir hæfniþættina 2025.

Greinin birtist fyrst í 1. tbl. VR blaðsins 2023. Smelltu hér til að lesa blaðið.