Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Ragnar Vr Portret 2019 5 Vefur

VR blaðið - 18.12.2019

Verkalýðshreyfing á tímamótum eftir vel heppnaða kjarasamninga

Fréttir af spillingarmálum virðast enn og aftur ógna stöðugleika í samfélagi okkar. Stöðugleika sem er forsenda þess að skilyrði nýrra kjarasamninga verði uppfyllt. Þar má meðal annars nefna þá nauðsyn að ná böndum á húsnæðismarkaðinn, að það takist að koma með raunveruleg úrræði fyrir fyrstu kaupendur, takist að auka leiguvernd og afnema verðtrygginguna svo fátt eitt sé nefnt. Það kom í hlut VR að halda utan um húsnæðismálin á vettvangi ASÍ og vinna þeim brautargengi með stjórnvöldum. Sú vinna hefur gengið vel og er niðurstaðan vægast sagt spennandi fyrir komandi kynslóðir. Stefnt er að því að eiginfjárlán verði í boði strax næsta vor handa fyrstu kaupendum, og þeim sem lent hafa á jaðri húsnæðismarkaðarins vegna hrunsins, ásamt breytingum á húsaleigulögum til varnar fólki á leigumarkaði. Það er því afar mikilvægt að stjórnvöld taki á spillingarmálum, sem koma upp, af festu og áræðni.

Áskoranir vegna tæknibreytinga á vinnumarkaði

Það er margt spennandi að gerast á vettvangi félagsins og viðfangsefni er snúa meðal annars að jafnrétti, umhverfismálum og framtíðinni eru bæði stjórn og starfsfólki hugleikin þessi dægrin. Þar má nefna fjórðu iðnbyltinguna og þær tæknibreytingar sem framundan eru á vinnumarkaðnum. Félagið hefur rannsakað vinnustaðalýðræði síðustu misseri og borið saman milli landa. Það sem er svo áhugavert við þá niðurstöðu er hversu algengt það er í þeim löndum, sem við berum okkur saman við, að starfsfólk eigi fulltrúa í stjórnum fyrirtækja og komi þannig að ákvörðunum með beinum og óbeinum hætti. Einnig hefur félagið beitt sér í auknum mæli á alþjóðavettvangi verkalýðshreyfingarinnar með því að sækja ráðstefnur og fundi þar sem hreyfingin er að þétta raðirnar gegn stórfyrirtækjum sem vilja nýta sér örar tæknibreytingar með félagslegum undirboðum. Þar liggja miklar áskoranir, sérstaklega í tæknigeiranum þar sem úthýsing starfa er sífellt að aukast. Þetta verður eitt af stóru málunum og mun nýskipuð framtíðarnefnd félagsins bera hitann og þungann af þeirri vinnu. Það er nokkuð ljóst að ein helsta krafa félagsins í næstu samningum muni verða að starfsmenn fái sæti í stjórnum fyrirtækja. 

Félagið hefur einnig sett mikinn kraft í starfsmenntamálin með samvinnuverkefni um fagháskólanám í verslun og verslunarstjórnun með áherslur á þær miklu breytingar sem eiga sér stað. Einnig hefur VR tekið í notkun Stafræna hæfnihjólið sem er sjálfsmatspróf á netinu þar sem félagsmenn geta sjálfir mælt styrkleika sína og hæfni á vinnumarkaði eftir þeim síbreytilegu kröfum sem gerðar eru. Ég skora á félagsmenn að taka prófið, það má finna á stafraenhaefni.is og á vef félagsins.

Þá hefur umhverfisnefnd félagsins tekið aftur til starfa og lagst í mikla vinnu við gerð metnaðarfullrar umhverfisstefnu félagsins. Nefndin er svo sannarlega með puttann á púlsinum þegar kemur að þessum málaflokki og ætlar að beita sér í ríkari mæli en áður hefur verið gert.

Sameinaðir verslunarmenn

Stóru verkefnin eru mörg og mikilvæg á næstu misserum og því lykilatriði fyrir félagsmenn VR að hafa einvalalið starfsfólks og stjórnar sem vinnur vel saman. Það er ekki þar með sagt að starfið sé alltaf dans á rósum þó svo vindurinn frá baklandinu sé þéttur í bakið. Landslag hreyfingarinnar hefur breyst mikið og hjá okkur verslunarmönnum sérstaklega. Það er hart að tilveru okkar sótt með gylliboðum gervistéttarfélaga sem hafa það að sérstöku markmiði sínu að draga úr samtakamætti hreyfingarinnar. Félög sem auglýsa sig sem lággjaldafélög, fara ekki í verkföll, bjóða upp á mjög takmarkaða þjónustu, og úthýsa sjúkrasjóði sína til tryggingarfélaga þar sem félagsmenn þurfa að veita aðgang að heilsufarsupplýsingum sínum til að eiga möguleika á að vera gjaldgengir. Þessi félög ganga jafnvel svo langt að segja félagsmenn sína taka kjarasamningsbundnum hækkunum VR. Ég þarf ekki að opinbera skoðun mína á fólki sem er tilbúið að borða brauðið en vill ekki með nokkru móti hjálpa til við að baka það. Viðhorf fólks sem telur það ekki í sínum verkahring að berjast fyrir grunnréttindum heildarinnar og vera til staðar fyrir okkar veikustu bræður og systur er að mínu mati þjóðarskömm. Eini möguleiki okkar til að ná árangri er með samtakamætti heildarinnar og við eigum að hjálpast að við að verja þau félög sem sannanlega vinna vinnuna og sniðganga tilraunir til að sundra okkur sem öflugri heild.

Það var því afar ánægjulegt að finna stuðninginn á síðasta Landssambandsþingi verslunarmanna þegar ég bauð mig fram til formanns og var sjálfkjörinn sem slíkur. Ég skynjaði ótrúlega mikinn kraft í okkar fólki, kraft til að taka verkefnin áfram, kraft til að láta verkin tala. Það var mikill einhugur um að þétta raðirnar enn frekar eftir miklar sameiningar hjá verslunarmannafélögum síðustu ár og var einróma niðurstaða að hefja vinnu við það að verslunarmenn standi sameinaðir í einu landsfélagi til framtíðar. Það eru frábærar fréttir fyrir verslunar- og skrifstofufólk. Við erum því hvergi nærri hætt og við höldum ótrauð áfram í baráttunni fyrir betri kjörum og réttlátara samfélagi.

Ég vil óska félagsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og þakka gjöfult samstarf á árinu sem er að líða.

Leiðari formanns birtist fyrst í 4. tbl. VR blaðsins 2019. Smelltu hér til að lesa blaðið.