Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
ragnar_frettamynd3.jpg

VR blaðið - 10.10.2017

Leiðari 3. tbl. VR blaðsins 2017 - Þegar valdastrúktúrinn riðlast

Þau stórtíðindi hafa gerst að ríkisstjórnin er fallin og kosningar eru á næsta leiti.

Því eru allar líkur á að loforðareikningar stjórnmálaflokkanna verði opnaðir upp á gátt á næstu misserum. Hlutverk okkar í verkalýðshreyfingunni verður því bæði að tryggja að hagsmunir launafólks verði settir á dagskrá og að loforð verði efnd en kosningasvik við kjósendur virðist vera einskonar þjóðaríþrótt íslenskra stjórnmálamanna og flokka.

Verkalýðspólitíkin er líka áhugaverð pólitík svo ekki sé meira sagt. Sérstaklega þegar óflokkspólitískur einstaklingur án baklands stjórnmálaflokks eða annarra fylkinga nær kjöri í eina æðstu stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar. Margt hefur verið sagt og allt mögulegt lesið út úr niðurstöðunni. Viðskiptablaðið sá sig tilneytt að hengja mig á „vinstri“ flokk í fyrirsögn á grein sinni „Ragnar Þór í Sósíalistaflokkinn?“ og taldi sögulegri arfleifð VR ógnað af vinstri vængnum og jafnvel einhverju enn hræðilegra sem blaðið kallaði sósíalisma og er væntanlega að vísa til þess að hægri öflin í pólitíkinni hafa gert tilkall til félagsins í sögulegu samhengi.

Ég vil því benda greinarhöfundum, hverjir sem þeir kunna að vera, á að félagið er eign félagsmanna og félagsmenn geta því hafnað þeim pólitísku öflum sem slegið hafa eign sinni og yfirráðum yfir félaginu og þeim vinnubrögðum sem þar eru viðhöfð. Hægri, vinstri, miðja er aukaatriði þó miðlarnir komist upp með að hólfa fólk niður og draga athyglina frá því sem raunverulega skiptir máli í baráttunni við að auka lífsgæði almennings. Blaðið gengur svo langt að setja forseta ASÍ á háan hest með því að skora á formann VR að hoppa í eina sæng með ASÍ, þá sömu og nokkrir fyrri formenn VR hafa dregið upp fyrir haus. Sömu sæng og dregin var upp fyrir haus gagnvart fjármálafyrirtækjunum, okurvöxtunum, verðtryggingunni og bruðlinu í lífeyrissjóðunum. Sömu sæng og er upp fyrir haus gagnvart heilbrigðisþjónustunni og grunnþjónustunni sem er að molna niður. Og láta þannig af frekari gagnrýni á störf hreyfingarinnar og vera þægur með hendur í skauti eins og hinir. Síðan tekur blaðið fram að nýkjörinn formaður VR sé ekki formaður allra félagsmanna vegna þess að aðeins 17% félagsmanna séu á bak við kjörið, án þess að hafa fyrir því að fjalla um það sögulega háa hlutfall sem kaus breytingar né fjalla um hvað var undir og hverju var hafnað.

Þær áherslur sem ég setti fram voru að félagsmenn gætu ráðið áherslum VR til næstu tveggja ára. Áherslurnar voru skýrar! Kannski kom Viðskiptablaðinu á óvart að einhver kæmist til valda í íslensku samfélagi, gegnum lýðræðislegar kosningar, og gerði það sem lofað var að gera. Það er kannski ánægjuleg breyting sem stjórnmálamenn allra flokka mættu taka sér til fyrirmyndar. Ef ég er sakaður um að gera það sem ég sagðist ætla að gera og fara of hart fram í að bæta kjör félaga minna og berjast gegn aukinni misskiptingu og gríðarlegri sjálftöku og yfirbyggingu lífeyriskerfisins verð ég að játa sekt mína. Breytingarnar munu hins vegar ekki gerast af sjálfu sér eða með einum manni. Það mun svo sannarlega ekkert breytast með núverandi forystu ASÍ. Við þurfum að virkja samtakamátt heildarinnar og standa í framlínunni með fólki sem hefur kjark til að synda á móti straumi ríkjandi afla sem viðhalda óbreyttu ástandi og misskiptingu í gegnum vel fjármagnaða pólitíska rétttrúnaðarmiðla og með nafnlausum rógburði.

Ég hef fundið fyrir gríðarlegum stuðningi frá félagsmönnum VR. Aukning félagsmanna hefur ekki verið meiri í áratugi. Þangað sæki ég mitt umboð. Umfjöllun Viðskiptablaðsins staðfestir að ég er á hárréttri leið.

Ragnar Þór Ingólfsson
Formaður VR