Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

VR blaðið - 04.01.2018

Tillögur að breytingum á kosningalögum VR

Stjórn VR mun leggja fram tillögur að breytingum á kosningalögum félagsins á aðalfundi VR árið 2018. Breytingartillögurnar eru sjö talsins og stuðla allar að því að kosningar í félaginu verði annað hvert ár í stað kosninga á hverju ári eins og nú er. Þá lengist einnig kjörtímabilið úr tveimur árum í fjögur en slíkar breytingar hafa verið til umræðu á síðustu árum. Var tillaga þess efnis borin upp á aðalfundi félagsins 2014 en henni var þá vísað frá þar sem meirihluti fundarmanna taldi breytinguna þurfa frekari kynningu. Er það meðal annars þess vegna sem breytingartillögurnar eru kynntar með svo góðum fyrirvara nú.

FYRSTA OG ÖNNUR BREYTINGARTILLAGA
Þessar tillögur snúa að kosningu formanns og stjórnar VR, gr. 20.1 og gr. 10. Gera þær ráð fyrir að formaður skuli kosinn í einstaklingskosningu fjórða hvert ár, í stað annars hvers árs eins og nú er.

Annað hvert ár skulu sjö stjórnarmenn kosnir til fjögurra ára, í stað tveggja ára, og fimm varamenn til tveggja ára í einstaklingsbundinni kosningu, í stað þriggja varamanna til eins árs eins og nú er.

ÞRIÐJA BREYTINGARTILLAGAN
Þriðja tillagan snýr að kjörseðlum og röðun á lista, gr. 20.4. Í stað röðunar á kjörseðli í stafrófsröð skal draga um röð frambjóðenda á kjörseðli og kjósendur merkja við minnst einn en mest sjö. Eins og áður skal sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði skipa 1. sæti í stjórn en næsta sæti skipar sá sem flest atkvæði fékk en er af hinu kyninu og svo framvegis. Þetta er gert til að viðhalda jafnri kynjaskiptingu í stjórn VR. Þeir sjö sem flest atkvæði fá samkvæmt framansögðu teljast rétt kjörnir aðalmenn í stjórn VR til fjögurra ára, í stað tveggja eins og nú er, og næstu fimm teljast réttkjörnir varamenn í stjórn VR til tveggja ára, í stað eins árs eins og nú er. Við þetta bætist að ef fjöldi frambjóðenda af hvoru kyni er ekki nægjanlegur til jafnrar kynjaskiptingar skal fjöldi atkvæða ráða röðun á listann.

FJÓRÐA BREYTINGARTILLAGAN
Fjórða tillagan snýr að kosningu í trúnaðarráð, gr. 20.2, segir að annað hvert ár skuli kjósa 41 fulltrúa í listakosningu til fjögurra ára í senn, í stað kosningu árlega til tveggja ára í senn. Að auki skulu tíu kosnir til vara til tveggja ára í senn.

FIMMTA BREYTINGARTILLAGAN
Fimmta tillagan snýr einnig að trúnaðarráði, gr. 14. Óbreytt er hverjir sitja í trúnaðarráði en auk stjórnar sitja stjórnir deilda sem verða til við sameiningu annarra verslunarmannafélaga af landsbyggðinni og 82 fulltrúar kosnir í allsherjaratkvæðagreiðslu, en í stað tveggja ára skulu þeir kosnir til fjögurra ára í senn en að auki verði tíu kosnir til vara til tveggja ára í senn. Þá er lagt til að auk ofangreindra eigi seturétt í ráðinu, án atkvæðisréttar, þeir frambjóðendur í stjórnarkjöri sem ekki ná kjöri og eiga þann rétt til næstu kosninga. Eins og áður er formaður félagins einnig formaður trúnaðarráðs og skal hann boða til fundar að minnsta kosti fjórum sinnum á ári og eftir
því sem þurfa þykir.

SJÖTTA BREYTINGARTILLAGAN
Sjötta tillagan fjallar um stjórnir deilda VR, gr. 15, en þær eru kosnar á deildarfundum og skal kjörtímabil þeirra vera fjögur ár í stað tveggja ára eins og nú er. Hlutverk deilda er eftir sem áður að vinna að sameiginlegum hagsmunum starfsmanna í starfsgreinum/atvinnugreinum á þeirra landssvæðum, stuðla að fræðslu þeirra og fjalla um kjaramál fyrir starfsgreinarnar/atvinnugreinarnar og landssvæðin. Þá er fjöldi stjórnarmanna óbreyttur, þrír aðalmenn og þrír varamenn.

SJÖUNDA BREYTINGARTILLAGAN
Sjöunda tillagan snýr að bráðabirgðaákvæði í lögum vegna ofangreindra lagabreytinga og fjallar um afbrigði kosninga árin 2019-2020.

Bráðabirgðaákvæði I: Kosningar árið 2019 skulu vera með hinu nýja sniði í gr. 20.1 og 20.2, það er að segja kosning formanns og stjórnar og kosning í trúnaðarráð, en með því afbrigði að varamenn í stjórn skulu vera þrír og með kjörtímabil til eins árs. Kjörtímabil hinna tíu varamanna í trúnaðarráð skal einnig vera eitt ár.

Kosningar árið 2020 skulu vera með því afbrigði að kjörtímabil bæði aðalmanna og varamanna í stjórn skal vera eitt ár. Einnig skal fjöldi varamanna í stjórn vera þrír. Þeir 41 og tíu varamenn sem kjörnir eru í listakosningu í trúnaðarráð skulu einnig vera með kjörtímabil í eitt ár.

Næsta kosning þar á eftir verður árið 2021 og svo koll af kolli annað hvert ár og þá að fullu samkvæmt nýjum reglum.

Hér má finna lög VR í heild sinni.

Frétt birtist í 4. tölublaði VR blaðsins 2017