Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_akranes_tviburarnir.jpg

VR blaðið - 26.02.2018

VR á Akranesi

Skrifstofa VR á Akranesi er til húsa að Kirkjubraut 40 en þar er þjónustuver VR starfrækt. Auk þjónustuversins sér skrifstofan um símsvörun fyrir kjaramálasvið VR og þá hefur einnig tölvunarfræðingur, einn af forriturum VR aðstöðu á skrifstofunni. Blaðamaður VR blaðsins heimsótti nokkra félagsmenn á svæðinu á vinnustaði þeirra og spjallaði við systurnar Málfríði og Júníu Þorkelsdætur en þær starfa báðar á skrifstofu VR á Akranesi.

Þjónustuver VR á Akranesi

Systurnar Málfríður og Júnía Þorkelsdætur starfa á skrifstofu VR á Akranesi og hafa gert frá því Verslunarmannafélag Akraness sameinaðist VR árið 2002. Málfríður, Fríða, er skrifstofustjóri en Júnía var lengi formaður Verslunarmannafélags Akraness en báðar unnu þær hjá VA fyrir sameininguna.

Verslunarmannafélag Akraness var fyrsta félagið til að sameinast VR. Hvernig gekk sameiningin?

Júnía: VA var öflugt félag með góða fjárhagsstöðu, en með tillögu minni á sínum tíma um sameiningu vonaði ég að félagsmenn okkar fengju öflugra félag og jafnvel hærri laun þar sem launamunur var talsverður. Sameiningin gekk mjög vel en ákveðið var að byrja á tveggja ára reynslutíma og varð formleg sameining félaganna árið 2004. Það voru allflestir hlynntir sameiningu og af þeim sem greiddu atkvæði var aðeins einn á móti en félagið taldi um 230 félagsmenn. Í svona litlu félagi var oft erfitt að fá fólk í vinnuferðir og vildi því vinnan lenda á fáum einstaklingum. Ef fólk gaf kost á sér í stjórn fyrir félagið, leiddi það til þess að það festist þar. Ég var t.d. formaður frá árinu 1991 og gegndi stöðunni til ársins 2002. Þetta er ekki gott, það þarf að vera endurnýjun til að hugmyndir verði fleiri.

Sameiningin var líka nauðsynleg vegna þess að atvinnusvæðið okkar var farið að skarast. Margir voru að vinna í Reykjavík en áttu heima upp á Skaga eða öfugt. Og svo kom járnblendið og álverið og þá kom fólk frá báðum svæðum. Við settum það sem skilyrði fyrir sameiningu að hér yrði áfram rekin skrifstofa á Akranesi. VR á Akranesi gekk beint inn í VR og er ekki deild í VR eins og önnur félög sem hafa komið inn. Akurnesingum hefur fjölgað mikið á þessum tíma sem liðinn er. Í dag höfum við aðgang að skrifstofu allan daginn og öflugu félagi sem hugsar vel um félaga sína. Ef litið er til baka er ég viss um að þetta hafi verið gæfuspor fyrir félagsmenn okkar.

Fríða: Þá vorum við svo heppin að þáverandi formaður fékk þá hugmynd að þjónustuver VR yrði starfrækt hér á Akranesi. Þar sem tæknin var orðin það góð þótti ekkert því til fyrirstöðu. Þetta var mjög góð hugmynd og var auðvitað alveg frábært þar sem þetta var mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið. Ekki síst að það myndi tryggja að hér yrði skrifstofa, sem var hluti af samkomulaginu. Hingað komu fimm stöðugildi og svo bættist við tölvunarfræðingur á skrifstofuna, sem er einn af forriturum VR. Öll aðstaðan hér á skrifstofunni er til fyrirmyndar, þetta er flottur vinnustaður og hér líður okkur vel. Auk okkar vinna í þjónustuverinu Erna Eyjólfsdóttir, Inga Hanna Ingólfsdóttir og Sigrún Svava Gísladóttir en Sigrún Svava hefur starfað hér frá sameiningu eins og við systur og áttum við 15 ára starfsafmæli á dögunum.

Hvernig hefur þjónustan við félagsmenn á svæðinu breyst eftir sameiningu?

Fríða: Þjónustan breyttist náttúrulega til batnaðar og varð sterkari fyrir félagsmenn hér á svæðinu. Helstu verkefni skrifstofunnar eru fyrst og fremst að sinna verkefnum þjónustuvers VR en þrjár sinna því auk þess sem tvær okkar svara líka símtölum fyrir kjaramálasviðið. Svo förum við systur einu sinni í viku til Reykjavíkur á fundi kjaramálasviðs sem eru gríðarlega mikilvægir. Starfsemin er öll miklu öflugri og sérstaklega þessir félagslegu þættir, að fólk geti sótt hingað þjónustu í stað þess að þurfa að keyra í bæinn, sem er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem hafa lent í veikindum til dæmis. Svo eru það auðvitað kjarasamningarnir og öll þessi þekking sem svo stórt og öflugt félag býr yfir.

VR á Akranesi                                    Starfsmenn VR á Akranesi: Erna Eyjólfsdóttir, Málfríður Þorkelsdóttir, Júnía Þorkelsdóttir,
                                    Viktor Elvar Viktorsson, Inga Hanna Ingólfsdóttir og Sigrún Svava Gísladóttir.
                                    Myndin er tekin á Byggðasafninu í Görðum Akranesi. 


Viðtal birtist í 4. tölublaði VR blaðsins 2017