Hver er ávinningurinn af þátttöku í Fyrirtæki ársins?

Í könnun VR á Fyrirtæki ársins er viðhorf starfsmanna til níu lykilþátta í starfsumhverfinu metið. Könnunin er vettvangur fyrir félagsmenn til að koma skoðunum sínum á framfæri og láta stjórnendur vita af því sem vel er gert og hvað betur má gera. Niðurstöðurnar eru stjórnendum hafsjór upplýsinga og hagnýtur leiðarvísir um hvort úrbóta sé þörf og þá hvar. Þær sýna ekki einungis hver staða fyrirtækisins er í augum starfsmanna heldur einnig hver staða þess er í samanburði við önnur fyrirtæki á vinnumarkaði.

Virkjum mannauðinn

Hugmyndafræðin sem býr að baki Fyrirtæki ársins er sú að innra starfsumhverfi fyrirtækja hafi áhrif á afkomu þeirra ekki síður en ytri rekstrarskilyrði. Þau fyrirtæki sem einhverra hluta vegna virkja mannauð sinn illa eða alls ekki geti hvorki fært sér hagstæð ytri skilyrði í nyt né brugðist við neikvæðum rekstrarskilyrðum eða utanaðkomandi áföllum.
Innra starfsumhverfi vísar í þessu samhengi fyrst og fremst til þeirra viðhorfa sem eru ríkjandi meðal starfsfólks. Hvaða augum lítur það starf sitt, starfsaðstöðu, samstarfsmenn, yfirmenn og stefnu og stjórnun fyrirtækisins? Hvert er viðmót yfirmanna í garð undirmanna sinna? Því neikvæðari sem þessi viðhorf eru þeim mun lélegra er innra starfsumhverfi fyrirtækisins.

Þetta má mæla á marga vegu. Í könnun VR byggja niðurstöðurnar á níu lykilþáttum: stjórnun, starfsanda, launakjörum, vinnuskilyrðum, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækis, jafnrétti og ánægju og stolti af vinnustaðnum. Þessir þættir endurspegla það traust sem ríkir í samskiptum innan fyrirtækisins, hversu stolt eða hreykið starfsfólkið almennt er af starfi sínu og fyrirtækinu sem það starfar hjá, þá virðingu sem yfirmenn bera fyrir starfsfólki sínu og það andrúmsloft sem ríkir á vinnustaðnum.

Ánægt starfsfólk, aukin gæði

Fyrirtæki sem telst eftirsóknarverður vinnustaður getur valið úr hæfasta starfsfólkinu og það nýtur góðs af tryggð starfsfólksins. Framleiðsla og þjónusta aukast að gæðum þar sem samlegðaráhrifin eru þau að allt starfsfólk fyrirtækisins leggur sig fram um að ná árangri. Gott starfsumhverfi dregur úr álagi og streitu og eykur almenna starfsánægju sem stuðlar aftur að því að veikindadögum fækkar. Starfsfólkið sýnir frumkvæði í starfi sem ýtir undir nýjungar í rekstri fyrirtækisins og árangursríka þróun. Fyrir vikið verður fyrirtækið sveigjanlegra gagnvart breytingum í rekstrarumhverfinu eða breyttum samkeppnisaðstæðum. Ímynd fyrirtækisins verður sterk, bæði inn á við gagnvart starfsfólkinu og út á við og fyrirtækið nýtur jafnframt góðs af jákvæðu umtali.

Könnunin segir hvað þarf að gera betur

Fyrirtæki ársins gerir stjórnendum kleift að nálgast innra starfsumhverfi sitt með markvissum og árangursríkum hætti. Í fyrsta lagi eru niðurstöðurnar áreiðanlegt mælitæki á frammistöðu fyrirtækisins sem vinnustaðar. Þær segja til um hvort og þá hvaða vanda er við að etja og um leið hvaða sóknarfæri það á. Í öðru lagi veitir Fyrirtæki ársins mikilvægan samanburð á milli ára. Í þriðja lagi fela skilgreiningar Fyrirtækis ársins í sér öflug verkfæri sem stjórnendur geta beitt í samvinnu við starfsfólk til að gera vinnustaðinn eftirsóknarverðan.

Öflugt tæki fyrir VR

Niðurstöður könnunarinnar eru mikilvægar fyrir starfsemi VR, þær gefa félaginu skýra og viðamikla mynd af viðhorfum félagsmanna til vinnustaða sinna. Þessar upplýsingar nýtast félaginu í sinni kjarabaráttu, gefa VR færi á að meta hvað skuli leggja áherslu á í kröfugerð kjarasamninga og hvort breyta þurfi viðhorfi stjórnenda og / eða hins opinbera. Könnunin rennir þannig fleiri stoðum undir starfsemi og þjónustu félagsins.