Vr Fanar 6

Almennar fréttir - 11.11.2023

VR fordæmir árásir gegn almennum borgurum og kallar eftir tafarlausu vopnahléi í Ísrael og Palestínu

Stjórn VR harmar ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að sitja hjá í atkvæðagreiðslu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í Ísrael og Palestínu og telur hana óverjandi. Árásum á almenna borgara verður að linna og nauðsynlegt er að tryggja íbúum á Gaza aðgang að nauðsynjavörum og mannúðaraðstoð en skortur á rafmagni, vatni, mat og lyfjum blasir við.

VR fordæmir stríðsrekstur Ísraelshers sem hefur drepið 10.000 palestínska borgara á síðustu vikum, þar af 4.000 börn. VR fordæmir sömuleiðis hryðjuverkaáras Hamas samtakanna þann 7. október 2023 þar sem 1.400 ísraelskir borgarar voru myrtir og 240 tekin gíslatöku.

Enginn vafi er um að aðgerðir Ísraelshers á Gaza brjóta alþjóðalög en markviss eyðilegging innviða, fjöldamorð almennra borgara, umsátur og lokanir á aðgengi íbúa að vatni og rafmagni flokkast sem stríðsglæpir. Réttur Ísraelsríkis til sjálfsvarnar takmarkast af alþjóðalögum og nær engan veginn til þeirra aðgerða sem hafa valdið ómældri þjáningu á Gaza svæðinu. Orðræða ísraelskra stjórnvalda ber vott um vilja til frekari árasa, þjóðernishreinsana og skeytingarleysi gagnvart lífi almennra borgara á Gaza. Slíka orðræðu ber að fordæma harkalega.

VR skorar á íslensk stjórnvöld að þrýsta á ríkisstjórn Ísraels að koma í veg fyrir manndráp á varnarlausum borgurum og leggi áherslu á að þau virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og fjórða Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Núverandi átök endurspegla algjört gjaldþrot stefnu Ísraelsstjórnar og virka sem olía á eld. Hernaður gegn almennum borgum getur aldrei orðið undirstaða friðar.

Nauðsynlegt er að tryggja öryggi almennra borgara í Palestínu og Ísrael og sjá til þess að mannréttindi og alþjóðalög séu alls staðar virt. Stjórn VR krefst þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir tafarlausu vopnahléi á svæðinu, friðarviðræðum og endalokum hernáms Ísraels í Palestínu.

Stjórn VR