Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_1.maí_gangan-2.jpg

Almennar fréttir - 04.05.2017

Yfirlýsing frá formanni VR

Vegna yfirlýsingar fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík vill formaður VR koma eftirfarandi á framfæri.

Það leikur enginn vafi á því að ég bauð mig fram til að halda ræðu á Ingólfstorgi þann 1. maí síðastliðinn. Þar sem undirbúningsnefnd hátíðarhaldanna hefur engan sérstakan tölvupóst, að mér vitandi, kom ég þessari beiðni minni á framfæri á stjórnarfundi VR við Ingibjörgu Ósk Birgisdóttur, sem situr í stjórn VR, er einn skipuleggjenda hátíðarhaldanna og á sæti í 1. maí nefnd fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Ingibjörg er einnig varaforseti ASÍ. Það er ekki hlaupið að því að koma skilaboðum til fulltrúaráðsins þar sem engar sérstakar boðleiðir virðast sjáanlegar, hvorki heimasíða né tölvupóstfang eða símanúmer. Reyndar er litlar sem engar upplýsingar um fulltrúaráðið að finna á heimasíðu ASÍ eða helstu leitarvélum Internetsins. Lá því beinast við að tala við einn af skipuleggjendum hátíðarhaldanna. Ingibjörg hefur staðfest að ég hafi beðið um að halda ræðu og því á hennar ábyrgð að koma því áleiðis, ef málið þurfti formlega meðferð. Ingibjörg Ósk sagði mér að ekki væri unnt að hliðra til í dagskránni vegna þess að þetta væri allt fyrirfram ákveðið og búið væri að velja ræðumenn. Ég tók því þá ákvörðun að tala á öðrum fundi á Austurvelli eftir að hafa gengið með félögum mínum niður að Ingólfstorgi. Það varð enginn klofningur á milli VR og ASÍ með þessari ákvörðun minni og því málið allt stormur í vatnsglasi. Klofningurinn varð þegar ég náði kjöri sem formaður VR enda var framboð mitt vantraustyfirlýsing á forystu ASÍ.

Ég skora á fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík að koma sér upp tölvupóstfangi og pósthólfi svo unnt verði að koma formlegum beiðnum til þeirra í náinni framtíð.

Með vinsemd og virðingu
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Úr frétt mbl.is þar sem Ingibjörg staðfestir beiðni mína en segir svo reyndar að engin beiðni hafi borist.

Ingibjörg Ósk Birgisdóttir, varaforseti ASÍ og stjórnarmaður í VR, segir að búið hafi verið að ákveða fyrirfram að kona héldi ræðuna. „Þetta kom til tals á stjórnarfundi. Hann segir að hann geti haldið ræðuna en ég segi að það sé ekki hægt, það sé búið að ákveða að kona haldi hana. Það kom aldrei nein beiðni af hans hálfu,“ segir Ingibjörg í Morgunblaðinu í dag.