Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
ragnar_vr_portret-3.jpg

VR blaðið - 10.12.2018

Aldrei svigrúm til launahækkana!

Mikil og óvægin umræða hefur skapast um kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar og hafa margir farið hamförum í dómsdagsspám sínum verði kröfum hennar mætt.

Skrúðpennar hagsmunaafla keppa nú í heimsleikum gífuryrða um skaðsemi nýrrar forystu. Ætla mætti á skrifum þeirra að frekja og svívirðileg framganga verkalýðshreyfingarinnar hafi aukið verðbólguvæntingar, fellt gengið og beri meira og minna ábyrgð á öllu því sem miður fer í íslensku samfélagi. Orðum fylgja ábyrgð og orðræðan hefur áhrif á væntingar samfélagsins. Auðvitað má fólk hafa skoðun á því hvort það telji að markmið kröfugerða stéttarfélaganna náist. En við skulum hafa það í huga hverjir bera hina raunverulegu ábyrgð á hræðsluáróðrinum og óvissunni sem skapast í kringum hann. Það þarf ekki að fara lengra aftur en í fyrirsagnaflaum fréttamiðla fyrir síðustu kjarasamninga til að setja hlutina í samhengi.

Ef vel er skoðað hefur aldrei í sögunni verið svigrúm til að hækka laun í aðdraganda kjarasamninga, að mati viðsemjenda okkar. Það hlýtur að teljast mótsagnakennt að hafa ekki fengið þessi sjónarmið fram þegar embættismanna- og forstjóraelítan tók til sín gríðarlegar hækkanir. Þó ekki væri nema fyrir þá staðreynd að þeir sem nú hæst gala um skaðsemi þess að fólk geti lifað í íslensku samfélagi með mannlegri reisn voru þegjandi hljóðir þegar flóðbylgjur kjararáðs flæddu yfir efsta lag samfélagsins, með afturvirkni, kaupaukum og bónusum. Svo miklar voru áhyggjurnar af svigrúmi og ábyrgð, hagvexti og gengi, kaupmætti og verðbólgu að verkalýðshreyfingin og almenningur ærðust í þögninni.

Hverjir bera raunverulega ábyrgð á stöðunni? Hverjir bera ábyrgð á hræðsluáróðrinum?

Að halda því fram að ábyrgar kröfur verkalýðshreyfingarinnar séu að veikja gengið og auka verðbólguþrýsting er beinlínis rangt. Það gerir hins vegar útstreymi fjármagns lífeyrissjóða og útlánaaukning bankanna. Það er rétt að verkalýðshreyfingin og undirritaður hafi talað með hvassari hætti en fólk á almennt að venjast. Er eitthvað athugavert við það? Er eitthvað hræðilegt að sjálf verkalýðshreyfingin sýni smá lífsmark og að blóðið sé farið að renna um æðar grasrótarinnar?
Ég hvet fólk til að lesa yfir kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA sem finna má bæði finna í nýjasta tölublaði VR blaðsins og á vr.is hér.

Leiðari formanns birtist í 4 tbl. VR blaðsins 2018.