Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.
ragnar_vr_portret-3.jpg

VR blaðið - 14.03.2019

Lýðræðið

Nú eru kosningar í VR líkt og alltaf á þessum tíma árs. Margir myndu kannski dæsa og segja: „Enn einar kosningarnar!“ En svona virkar þetta best. Að félagsmenn geti haft áhrif á það hverjir hlaupa með kyndil hagsmuna okkar næstu árin. Bæði fyrir félagsmennina sjálfa, afkomendur og samfélagið allt.

Ég tók þátt í mínum fyrstu kosningum í félaginu árið 2009, en þá var gerð nokkurs konar „hallarbylting“ í VR eftir að upp komst m.a. að þáverandi formaður félagsins hafði átt sæti í stjórn og lánanefnd Kaupþings banka sem endaði með einu stærsta gjaldþroti sögunnar. Tengsl verkalýðsforystunnar við fjármálakerfið vöktu mikla reiði í samfélaginu og tók hópur fólks sig til og bauð sig fram gegn sitjandi stjórn. Kosningakerfið sem þá var við lýði var mjög óaðgengilegt og flókið. Framboðslista um stjórn og formann VR, „A-lista“, var stillt upp á sérstökum fundum sem kallaðir voru nýársfundir. Þar var þröngum hópi félagsmanna VR falið að velja sér forystu en ekki var hlaupið að því að bjóða fram mótframboð eða „B-lista“. Það tókst þó árið 2009 en þá sigraði „B-listinn“ með miklum yfirburðum í allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu. Kosningalögum VR var breytt í kjölfarið og fer nú skipan stjórnar fram í einstaklingskjöri og geta allir fullgildir félagsmenn VR boðið sig fram til stjórnar, óháð listafyrirkomulagi. Þá eru kosningarnar rafrænar á vef VR og því mjög aðgengilegt fyrir félagsmenn að kjósa.

Töluverð gagnrýni hefur komið frá sérhagsmunaöflum um að forysta VR njóti ekki mikils trausts miðað við kosningaþátttöku sem hlutfall af heildarfjölda félagsmanna. Þ.e. að stjórnarmenn og formaður hafi takmarkað umboð þar sem einungis 20 til 30 prósent félagsmanna taki að meðaltali þátt í kosningum félagsins. Slíkar fullyrðingar eru í besta falli broslegar tilraunir til að gera lítið úr umboði okkar enda vinna flest stéttarfélög enn eftir gamla fyrirkomulaginu. Það má því spyrja á móti hversu sterkt umboð formanns og stjórnar væri ef þau væru kosin af 100 manna hópi fulltrúa sem skipaður væri af stjórninni sjálfri í 36 þúsund manna félagi. Ekki hef ég heyrt sömu raddir gagnrýna umboð annarra verkalýðsforingja og stjórna stéttarfélaga sem enn skipa eftir þunglamalegum listakosningareglum. VR er leiðandi stéttarfélag á flestum sviðum. Þegar kemur að opnu félagi og lýðræði þá skerum við okkur úr.

Það segir ákveðna sögu að undirritaður er fimmti formaður félagsins á síðustu 10 árum en nú liggur fyrir að ekkert mótframboð til formanns barst og er ég því sjálfkjörinn.
Það staðfestir að full þörf er á að forysta stéttarfélaga setji störf sín í dóm félagsmanna reglulega. Í tilfelli VR er það á tveggja ára fresti. Formaður félagsins er jafnframt talsmaður þess en starf formanns er að miðla þeim ákvörðunum og þeirri stefnu sem stjórnin ákveður hverju sinni. Þess vegna er svo mikilvægt að velja öfluga og virka stjórn til að leiða þau verkefni sem framundan eru.

Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar með aukinni þátttöku félagsmanna verður ekki að veruleika á einni nóttu. Það tekur tíma að byggja upp trausta og öfluga verkalýðshreyfingu með aukinni stéttar- og samfélagsvitund. Á þeirri vegferð þarf að velja fólk til að leiða hreyfinguna til vegs og virðingar. 13 félagsmenn VR eru í framboði til 7 stjórnarsæta í stjórn VR, auk 3 varamanna, og hvet ég alla félagsmenn til að kynna sér frambjóðendur og málefni þeirra vel og síðast en ekki síst, kjósa!

Leiðari formanns birtist fyrst í VR blaðinu, 1. tbl. 2019