Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.
Ragnar Thor Ingolfsson - formadur VR.jpg

VR blaðið - 07.10.2019

Fjölbreytt og krefjandi verkefni í vetur

Eftir miklar annir í kringum lífskjarasamningana, sem undirritaðir voru síðastliðið vor, er vinna hafin af fullum krafti við að sjá til þess að fjölbreyttum markmiðum samningsins verði náð. Húsnæðisnefnd ASÍ vinnur að leiguvernd, málefnum fyrstu kaupenda og þeirra sem lent hafa utan markaðarins vegna fjárhagsáfalla auk þess að koma nýju húsnæðisfélagi, Blæ, á koppinn. Við í VR höfum fengið það mikilvæga hlutverk að leiða vinnuna á vettvangi ASÍ í húsnæðismálum og mun haustið og komandi vetur verða nýtt til ná þeim markmiðum sem við settum okkur.

Stytting vinnuvikunnar var eitt af stóru málunum í okkar kjarasamningi þar sem VR náði fram hreinni styttingu vinnuvikunnar sem nemur 9 mínútum á dag eða 45 mínútum á viku. Félagið mun hefja metnaðarfullt kynningarátak í aðdraganda gildistöku þann 1. janúar 2020. Fyrirtæki þurfa að hafa samið við starfsfólk sitt um útfærslu fyrir 1. desember 2019, að öðrum kosti mun vinnudagurinn styttast um 9 mínútur á dag hvað sem öðru líður. Samningur VR gefur einnig færi á frekari styttingu vinnutímans með tilfærslu á hvíldartímum, eins og gert var í öðrum samningum, en við tókum þá ákvörðun að leggja ekki áherslu á þann hluta þar sem við teljum hvíldartíma mikilvæga í baráttunni gegn streitu og kulnun í starfi.
Í sumar sem leið hefur stjórn og starfsfólk VR ekki setið auðum höndum frekar en fyrri daginn og vann félagið fullnaðarsigur á þeirri vegferð sinni að skipta út fulltrúum VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Félagið tók einnig ákvörðun um að fara með Neytendasamtökunum í sameiginlegt átak gegn ólögmætri innheimtu smálánafyrirtækja.

Nefndarstörf og stefnumótun stjórnar eru komin á fullt skrið og hafa verið stofnaðar tvær nýjar nefndir, framtíðarnefnd og umhverfisnefnd. Þessar nefndir munu móta stefnu félagsins í sínum málaflokkum næstu árin og vonandi skipa þar VR í forystuhlutverk eins og svo oft áður. Það verður krefjandi hlutverk okkar í stjórn og innan forystu verkalýðshreyfingarinnar að koma öllum þeim fjölmörgu málum sem samið var um í lífskjarasamningnum í framkvæmd. Sem betur fer skynjum við mikinn vilja stjórnvalda og viðsemjenda okkar til að samningar haldi og er ekki tilefni til annars en bjartsýni um efndir. Við höfum náð vel utan um verkefnið undir verkstjórn forseta ASÍ og höfum náð að skipta með okkur verkum þannig að hlutverk hvers og eins er vel skilgreint og skipulagt innan nefndarstarfs ASÍ. Skattamálin, húsnæðismálin og bann við 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum verða í brennidepli á vettvangi Alþýðusambandsins næstu misserin. Þá eru einnig fjölmargir þættir samningsins sem ekki hafa farið hátt og má þar nefna hlutfallalaun 18 og 19 ára sem verða leiðrétt.

Þessu til viðbótar gegnir VR stóru hlutverki í nýju rannsóknarverkefni á vegum forvarnarhóps á vegum VIRK starfsendurhæfingar sem hefur það hlutverk að hefja umfangsmikla greiningarvinnu á orsökum mikils brottfalls á vinnumarkaði vegna álagstengdra kvilla. Ekki er vitað til þess að jafn umfangsmikil rannsóknarvinna hafi verið framkvæmd hér á landi. Hópurinn samanstendur af okkar færustu sérfræðingum á þessu sviði og í þessu löngu tímabæra verkefni leiða saman hesta sína fulltrúar hagsmunasamtaka ásamt aðilum frá hinu opinbera. Þá stendur til hjá VR að stórfjölga vinnustaðaheimsóknum auk þess að bjóða félagsmönnum í skipulagðar heimsóknir á skrifstofu félagsins þar sem starfsemin og þjónustan, sem er afar umfangsmikil, verður kynnt ítarlega. Starfið í vetur verður því krefjandi en jafnframt fjölbreytt og skemmtilegt með öflugum og samheldnum hópi stjórnar og frábæru starfsfólki VR.

Leiðari formanns birtist fyrst í 3. tbl. VR blaðsins 2019. Smelltu hér til að lesa blaðið.