Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-2.jpg

Almennar fréttir - 20.06.2017

Fullnaðarsigur vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar

Ríkið braut gegn stjórnarskrárvörðum rétti félagsmanna VR þegar það stytti bótatímabil atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30 mánuði fyrir rúmum tveimur árum. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar í máli sem VR höfðaði á hendur ríkinu. Formaður VR fagnar niðurstöðunni og segir dóminn senda skýr og mikilvæg skilaboð til stjórnmálamanna um að þeir geti ekki gengið á réttindi fólks eins og þeim sýnist.

Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar komu til framkvæmda þann 1. janúar 2015. Þær fólu í sér að bótatímabil atvinnuleysisbóta var stytt um sex mánuði, úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Síðast þegar lögum um atvinnuleysistryggingar var breytt, árið 2006, var atvinnuleitendum gefinn aðlögunartími þannig að ekki kæmi til afturvirkrar skerðingar, en svo var ekki raunin nú. Skerðingin kom til framkvæmda strax og svipti þannig marga atvinnuleitendur í félaginu atvinnuleysisbótum sem þeir töldu sig eiga rétt til. Formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, segir það lágkúrulegt að ganga á réttindi atvinnuleitenda með þessum hætti og skerða greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrirvaralaust. Hér hafi verið ráðist gegn þeim sem minnst mega sín.

Í ljósi þess að hagsmunir félagsmanna voru í húfi taldi VR engan annan kost í stöðunni en höfða mál, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, til að fá þessari ákvörðun löggjafans hnekkt. Það var gert í byrjun árs 2015 og var jafnframt höfðað mál fyrir hönd eins félagsmanns sem varð fyrir skerðingu á bótarétti sínum vegna breytinganna. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í stefnunni bendir VR á að breytingarnar á lögunum hafi ekki verið í samræmi við meginreglur stjórnskipunar um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Eignaréttur þeirra sem þegar fengu atvinnuleysisbætur hafi verið skertur með afturvirkum og ólögmætum hætti og gengið hafi verið gegn réttaröryggi þeirra. Lagasetningin hafi verið byggð á ómálefnalegum forsendum og ekki verið gætt meðalhófs. Ríkið taldi sig geta sparað 1.130 milljónir króna með þessum breytingum.

VR gerði þá kröfu að viðurkennt yrði að ríkinu hafi ekki verið heimilt að skerða réttinn til atvinnuleysisbóta með þeim hætti sem gert var. Undir þá kröfu tók Héraðsdómur (sjá dóminn frá apríl 2016). Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem birti dóm sinn þann 1. júní 2017 (sjá dóminn frá júní 2017). Hæstiréttur tekur undir kröfu VR að þessi sex mánaða styttingin á tímabili atvinnuleysisbóta hafi verið óheimil að því marki sem hún skerti bótarétt félagsmanna sem fengu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sóttu um bætur 1. janúar 2015 eða síðar og hefðu haldið áfram að nýta rétt sinn til bóta samkvæmt lögunum frá árinu 2006.

Meðalhófs ekki gætt

Í dómi Hæstaréttar segir að atvinnuleysisbætur séu greiðsla af félagslegum toga, fjárhagsaðstoð, sem í aðalatriðum væri þannig til komin að launamaður hefði áunnið sér rétt til bótanna með því að sinna í þágu launagreiðanda starfi sem tryggingagjald væri greitt af. Krafa um slíkar bætur væri peningakrafa sem fæli í sér fjárhagsleg verðmæti. Í ljósi þessa eðlis kröfunnar nyti krafan verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og teldist því eignarréttindi. Löggjafinn gæti sett þessum réttindum takmörk en slík skerðing yrði að taka til allra eignaréttinda af tilteknum toga og af ástæðum sem taldar yrðu almennar. Eðlilegt samræmi þyrfti að vera á milli þess markmiðs með skerðingunni sem löggjafinn hefði stefnt að og þeirra leiða sem notaðar væru til að ná markmiðinu.

Í dómnum segir að þó markmið löggjafans með breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið málefnalegt hafi hann átt þess allan kost að gæta meðalhófs og taka sanngjarnt tillit til þeirra sem hefðu átt virkan rétt til atvinnuleysisbóta eða höfðu virkjað þann rétt fyrir gildistöku laganna þótt þeir hefðu ekki þegið bætur í árslok 2014. Dómurinn taldi að ekki hafi verið gætt meðalhófs gagnvart félagsmönnum VR sem þegar hefði notið bóta og misst þann rétt strax eða fljótlega í kjölfar gildistöku laganna. Löggjafinn hefði haft færi á því að gæta slíks meðalhófs og milda áhrif skerðingarinnar með áþekkum hætti og gert var við gildistöku eldri laga um atvinnuleysisbætur þegar tímabil atvinnuleysisbóta var stytt úr fimm árum í þrjú árið 2006. Það hafi ekki verið gert og yrði ríkið að bera hallann af því.

VR fylgir málinu eftir gagnvart félagsmönnum

Í ljósi þessarar niðurstöðu gerir VR þá kröfu að Vinnumálastofnun flýti endurreikningi á atvinnuleysisbótum allra félagsmanna VR sem og annarra einstaklinga sem breytingin náði til á þeim tíma, þ.e. þeirra sem fengu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sóttu um slíkar bætur 1. janúar 2015 eða síðar og hefðu haldið áfram að nýta rétt sinn til bótanna samkvæmt lögum. VR hvetur félagsmenn sína, sem breytingin tekur til, til að hafa samband við Vinnumálastofnun og leita réttar síns. VR mun fylgja því eftir að bætur og dráttarvextir verði rétt reiknaðir.

Grein birtist í 2. tölublaði VR 2017 - smelltu hér til að skoða blaðið