Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
mynd104.JPG

Almennar fréttir - 20.06.2019

Umboð stjórnarmanna VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna afturkallað

Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna nú í kvöld, fimmtudaginn 20. júní 2019, var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða.

Eins og við greindum frá í frétt okkar í gær hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi. Til fundar í kvöld var því boðað í þeim tilgangi að bera upp tillögu um að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í lífeyrissjóðnum og að skipa nýja stjórnarmenn í þeirra stað til bráðabirgða.

Tillagan sem borin var upp og samþykkt með 20 atkvæðum gegn 2 (2 sátu hjá) var eftirfarandi:

„Fundur í fulltrúaráð VR hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna samþykkir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli VR og stjórnarmanna VR í Lífeyrissjóð verzlunarmanna og að umboð aðal- og varamanna VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna er afturkallað.„

Að því búnu var borin upp tillaga um eftirfarandi aðila í stjórn til bráðabirgða:

Aðalmenn
Bjarni Þór Sigurðsson
Guðríður Svana Bjarnadóttir
Helga Ingólfsdóttir
Stefán Sveinbjörnsson

Varamenn
Björn Kristjánsson
Oddur Gunnar Jónsson
Selma Árnadóttir
Sigríður Lovísa Jónsdóttir

Var tillagan um ofangreinda aðila sem stjórnarmenn VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til bráðabirgða samþykkt með 20 atkvæðum gegn 1 (3 sátu hjá).