Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_fyrirtaeki_arsins_hopmynd.jpg

Almennar fréttir - 23.05.2018

Fyrirtæki ársins 2018 - fimmtán fyrirtæki fá viðurkenningu

Fyrirtæki ársins 2018 hafa verið valin samkvæmt niðurstöðum könnunar sem VR stendur fyrir meðal þúsunda starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Markmið könnunarinnar er að leita upplýsinga um viðhorf starfsmanna til síns vinnustaðar en könnunin er einnig vettvangur starfsmannanna til að segja stjórnendum hvað er vel gert og hvað mætti betur fara. Fyrirtæki ársins eru fimmtán talsins, fimm í hverjum stærðarflokki. Niðurstöðurnar voru kynntar á viðburði á Hilton Reykjavík Nordica þann 23. maí.

  • Fyrirtæki ársins 2018 í hópi stórra fyrirtækja, þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri, eru dk hugbúnaður, Johan Rönning, Nordic Visitor, Pipar/TBWA og Sjóvá.
  • Fyrirtæki ársins 2018 í hópi millistórra fyrirtækja, þar sem starfsmenn eru 29 til 49 talsins, eru Áltak, Cyren, Expectus, Fulltingi og Margt smátt
  • Fyrirtæki ársins 2018 í hópi lítilla fyrirtækja, þar sem starfsmenn eru færri en 20, eru Attentus – mannauður og ráðgjöf, Beiersdorf, Eirvík, Microsoft Ísland og Rafport.

Fimmtán fyrirtæki í hverjum stærðarflokki fá titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki 2018 en lista yfir þau fyrirtæki má finna hér.

Um framkvæmdina

Árleg könnun VR á Fyrirtæki ársins er send til félagsmanna og fjölda annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði en nær 140 fyrirtæki tryggðu öllum starfsmönnum sínum þátttöku í könnuninni í ár, óháð stéttarfélagsaðild. Af þeim komust 130 á lista yfir fyrirtæki ársins en ekki náðist lágmarksþátttaka hjá hinum fyrirtækjunum. Einungis fyrirtæki sem bjóða öllum starfsmönnum sínum að taka þátt í könnuninni koma til greina í valinu á Fyrirmyndarfyrirtæki eða Fyrirtæki ársins.