Almennar fréttir - 20.09.2021

Hádegisfyrirlestrar VR hefjast

Fjölmargir áhugaverðir rafrænir hádegisfyrirlestrar eru í viðburðadagatali haustsins hjá VR. Þemað í september og október er starfsþróun og stafræn hæfni. Ljóst er að atvinnulífið stendur frammi fyrir miklum breytingum og sumar eru jafnvel nú þegar hafnar. Hádegisfyrirlestrarnir miða því nú að því að veita félagsfólki VR og öðrum innblástur við að gera sitt besta til að takast á við breytingarnar og þróast í takt við tímann.

Allir hádegisfyrirlestrarnir eru rafrænir. Þeir eru frumsýndir á auglýstum tíma, opnir út daginn á www.vr.is/streymi og fara svo inn á Mínar síður þar sem þeir eru aðgengilegir félagsfólki í fyrirfram ákveðinn tíma. Hér að neðan má finna yfirlit yfir hádegisfyrirlestrana. Hægt er að skrá sig á viðburði með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan.

Framtíðin er hafin! Hvað get ég gert til að undirbúa mig?
23. sept. kl. 12:00-13:00
Leiðbeinandi: Ingvi Hrannar Ómarsson, grunnskólakennari og frumkvöðull

Framtíðin er ekkert eins óljós og margir telja þér trú um. Til þess að þrífast og dafna í framtíðinni verðum við að undirbúa okkur fyrir hana núna og það er fullt sem þú getur gert til þess. Í þessum fyrirlestri fer Ingvi Hrannar yfir það hvaða hæfni og færni skiptir mestu máli að hafa eða þróa með sér inn í framtíðina. Ingvi er grunnskólakennari og handhafi Íslensku menntaverðlaunanna 2020 fyrir framúrskarandi stuðning við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni.

Smelltu hér til að skrá þig.

Þessi fyrirlestur verður með enskum texta og opinn á Mínum síðum í 30 daga eftir útsendingardag.

Stafræna hæfnihjólið!
7. október kl. 12:00-13:00
Leiðbeinandi: Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sérfræðingur í starfsmenntamálum hjá VR

Við lifum í heimi hraðra breytinga sem hafa áhrif á líf okkar úr ýmsum áttum. Þar með verður köllun á breytta hæfni sem snýr að notkun, skilningi, þekkingu og færni. Ein mest áberandi breytingin er stafræn þróun. Í þessum fyrirlestri fer Sandra Ósk yfir hugtakið stafræna hæfni, kynnir þá þætti sem Evrópusambandið flokkar sem meginþætti stafrænnar hæfni og hvernig Stafræna hæfnihjólið virkar.

Smelltu hér til að skrá þig.

Þessi fyrirlestur verður með enskum texta og opinn á Mínum síðum í 30 daga eftir útsendingardag.

Hönnunarhugsun
21. október kl. 12:00-13:00
Leiðbeinandi: Hlín Helga Guðlaugsdóttir, upplifunarhönnuður og verkefnastjóri hjá Gagarín

Hönnunarhugsun (e. Design Thinking) er aðferðafræði fyrir skapandi nálgun á fjölbreytt viðfangsefni þar sem fólk, þarfir þess og upplifanir eru í fyrirrúmi. Þessi nálgun hentar vel til úrbóta t.d. á þjónustu, í nýsköpun og stafrænni þróun. Í þessum fyrirlestri veitir Hlín Helga innsýn í aðferðafræðina og tekur dæmi úr íslenskum veruleika en fjölmörg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar hafa tileinkað sér hönnunarhugsunmeð góðum árangri á síðustu árum.

Smelltu hér til að skrá þig.

Þessi fyrirlestur verður einungis á íslensku og opinn á Mínum síðum í sjö daga eftir útsendingardag.