Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
frett27042018.jpg

Almennar fréttir - 27.04.2018

Verslunarmannafélag Suðurnesja gengur til sameiningarviðræðna við VR

Aðalfundur Verslunarmannafélags Suðurnesja (VS) sem haldinn var í Reykjanesbæ í gærkvöldi, fimmtudaginn 26. apríl, samþykkti með öllum greiddum atkvæðum, að gengið yrði til viðræðna við VR um sameiningu félaganna.

Á fundinum kynnti Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, starfsemi félagsins og Gils Einarsson fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurlands (VMS) sagði frá reynslunni af sameiningu VR og VMS. Í máli Ragnars Þórs kom fram að hann væri ánægður með þessa ákvörðun og að slík sameining myndi styrkja stöðu félagsmanna á svæðinu og VR í heildina. Það hefðu fyrri sameiningar VR við önnur landsbyggðarfélög sýnt, þar sem þeim hafi fylgt efling félagsstarfs og aukin þjónusta á viðkomandi svæðum.

Guðbrandur Einarsson, formaður VS og LÍV, sagði að aðdragandi þessarar ákvörðunar væri m.a. sú ólga sem skapast hefði í VS á síðustu vikum. Þessi tillaga væri fram komin til þess að skapa sátt svo að hægt verði að beina kröftum að því sem öllu máli skipti sem eru hagsmunir félagsmanna á svæðinu. Það sé því ánægjulegt að fundurinn hafi samþykkt þetta eins afgerandi og raunin varð.

Náist samkomulag milli félaganna í viðræðum, sem ekki er talið að muni taka langan tíma, verður tillaga um sameiningu lögð fyrir félagsmenn VS í allsherjaratkvæðagreiðslu. Samningurinn yrði svo lagður fram til staðfestingar á næsta aðalfundi VR.

Nánar verður fjallað um framgang þessa máls hér á vef VR um leið og fréttir berast.